„Það er nú flestum ljóst sem hafa skoðað áætlanir Orkuveitunnar að það er áætluð stórfelld eignasala á næsta ári og fátt annað sem kemur til greina en Gagnaveitan í því sambandi,“ sagði Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitunnar, þegar hann var spurður um hugsanlega sölu Gagnaveitu Reykjavíkur.

Samkvæmt aðgerðaáætlun sem samþykkt var á síðasta ári til að bæta rekstur Orkuveitunnar á fyrirtækið að afla 10 milljarða á tímabilinu 2011-2016 með sölu eigna. Rúmt ár er liðið frá því Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður Orkuveitunnar, lagði til á stjórnarfundi að Gagnaveita Reykjavíkur yrði seld. „Þar sem Gagnaveitan er skilgreind sem kjarnastarfsemi þá sendum við þetta til eigendanefndar sem þarf að taka ákvörðun áður að við getum kannað möguleika á sölu“, segir Haraldur, „við höfum þegar ítrekað það einu sinni að við þurfum að fá svör við þessu.

Dagur B. Eggertsson fer fyrir eigendanefndinni sem nú hefur málið í höndunum. Hann treysti sér ekki til að gefa upp nákvæma tímasetningu á því hvenær niðurstaða muni liggja fyrir. „Gagnaveitan er að koma inn á borð nefndarinnar núna og fer þar til skoðunar. Hún er ekki komin á dagskrá en mun gera það fljótlega. Við förum yfir gögn málsins á næstu vikum,“ segir Dagur.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.