Gagnaveita Reykjavíkur hlaut nýverið tvenn verðlaun á stærstu háhraðaráðstefnu heims, Broadband World Forum. Verðlaunin voru afhent að viðstöddum um 4.500 ráðstefnugestum. Önnur verðlaunin hlaut GR fyrir besta framtak í þjónustu og þá var Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri GR kosinn maður ársins í háhraðageiranum.

Ein heimsókn Ljósleiðarans besta þjónustuframtakið

„Ein heimsókn“ er samstarfsverkefni GR og þeirra fjarskiptafyrirtækja sem veita þjónustu um hann og felur í sér að í aðeins einni heimsókn til viðskiptavina er gengið frá öllum nauðsynlegum tengingum á heimilum fólks, ljósleiðarasambandið prófað og það afhent tilbúið til notkunar segir í fréttatilkynningu.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, segir það mjög uppörvandi að sjá Eina heimsókn fá þessa viðurkenningu. „Þetta gætum við ekki gert án faglegra vinnubragða okkar frábæra starfsfólks og samstarfsaðila,“ segir Erling Freyr.

„Viðskiptavinir fá fyrr samband, uppsetning er einfölduð fyrir tæknifulltrúa okkar og þjónustuaðilar Ljósleiðarans fá sinn búnað uppsettan á heimili viðskiptavinar.“

Um Broadband World Forum

Broadband World Forum er vettvangur fyrir þau fyrirtæki sem koma að háhraðavæðingu fjarskipta víðs vegar um heiminn. Um 4.500 gestir sóttu ráðstefnuna í Berlín að þessu sinni. Í háhraðavæðingu fjarskipta stendur Ísland mjög vel í samanburði við önnur lönd.

Hátt hlutfall íslenskra heimila getur fengið eins gígabits hraða og öll heimili landsins eru tengd Internetinu með einhverjum hætti. Þá er meðalhraði fjarskiptasambanda hér á landi meiri en nokkurs staðar samkvæmt mælingu Speedtest.net. Mikil útbreiðsla Ljósleiðarans hefur þar talsvert að segja.

Ljósleiðari fyrir allt höfuðborgarsvæðið árið 2018

Ljósleiðarinn nær nú þegar til 87 þúsund heimila og stendur öllum tengdum til boða eins gígabits tengihraði. Ljósleiðarinn nær til allra heimila í þéttbýli Reykjavíkur og á höfuðborgarsvæðinu öllu eru bara liðlega 4.000 heimili ótengd honum.