Vinna við uppbyggingu Verne Global gagnaversins á Keflavíkurvelli hefur verið stöðvuð, en starfsmenn voru sendir heim í gær. Lisa Rodes, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, staðfesti þetta við Viðskiptablaðið og segir að framkvæmdir hafi tímabundið verið settar í biðstöðu.

Verne Global er í eigu Verne Holdings ehf. sem aftur er í eigu Novators, fjárfestingarfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, og bandaríska fjárfestingarsjóðsins General Catalyst Partners. Lisa Rodes segir að uppbygging versins fari fram í áföngum sem byggist á þörfum viðskiptavina og afhendingaráætlun. „Ekki hefur verið hætt við framkvæmdina,” segir upplýsingafulltrúinn.

Upphafleg áform gerðu þó ráð fyrir opnun versins á síðasta ári, en efnahagshrunið setti strik í þann reikning. Lisa segir að búið sé að tryggja næga orku fyrir fyrsta áfanga gagnaversins, en vildi ekkert segja um fjármögnun framkvæmdanna. „Fjárhagshlið framkvæmdanna er trúnaðarmál.”