Donald Trump hefur ítrekað haldið því fram að Bandaríkjamenn séu að tapa í viðskiptum við Mexíkó. Gögn frá Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna benda þó til þess að viðskiptin einkennist af gagnkvæmum ávinningi.

Hefðbundin Mexíkósk framleiðsluvara er til að mynda framleidd úr 40% af bandarískum hlutum og hráefnum. Það gefur því auga leið að framleiðendur í Mexíkó séu að versla umtalsvert við Bandaríkin.

Sérfræðingar vestanhafs hafa reynt að benda nýja forsetanum á þessar staðreyndir og þar með reynt að verja NAFTA verslunarsamninginn, sem Trump vill tortíma.

Samkvæmt nýrri skýrslu frá viðskiptaráðuneytinu, eru um 6 milljón störf í Bandaríkjunum háð viðskiptum við Mexíkó. Tollamúrar gætu því haft alvarlegar afleiðingar.

Líklegt þykir þó að Trump teymið beiti þessum hótunum, til þess að kreista fram betri kjör og nýja samninga á kjörtímabilinu.