Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og aðilar vinnumarkaðsins hafa frá því í desember 2017 fundað reglulega í Ráðherrabústaðnum. Fundirnir hafa alls verið tíu talsins og hafa þeir verið haldnir vegna þess að um áramótin losna um 80 kjarasamningar, en mest af þeim eru samningar á almenna markaðnum. Þessir samningar eru því á milli aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA).

Að sögn Katrínar hefur verið rætt um eftirfarandi málefni á fundunum í ráðherrabústaðnum: kjararáð og launaþróun kjörinna fulltrúa og embættismanna, launatölfræði og hagnýting hennar, áherslur stjórnvalda í félagslegum umbótum og félagslegur stöðugleiki, stefna í húsnæðismálum, staða og stefnumörkun um sjóði vinnumarkaðarins - atvinnuleysistryggingar, fæðingarorlof og ábyrgðarsjóð launa, stefna í menntamálum, staða efnahagsmála og hagstjórn, útvíkkun Þjóðhagsráðs, sögulegt samspil launa, bóta, skatta og ráðstöfunartekna og endurskoðun tekjuskattkerfis. Einnig hafi ákveðnum verkefnum sem leiða af samtali stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins þegar verið lokið, en þessi verkefni eru hækkun atvinnuleysistrygginga og hækkun hámarksgreiðslna ábyrgðarsjóðs launa auk þess sem kjararáð hafi verið lagt niður. „Mitt mat er að þessir fundir hafi verið gagnlegir og tel að það sé mikilvægt að við byggjum upp svona samráð til lengri tíma. Ég tel að það skipti stjórnvöld alltaf miklu máli að eiga svona samtal við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin," segir Katrín.

Hlusta eftir sjónarmiðum aðila vinnumarkaðarins

Margir innan verkalýðshreyfingarinnar hafa kallað eftir kerfisbreytingum, meðal annars um breytingar á skattkerfinu. Katrín segir að stjórnvöld hafi hlustað eftir áherslum verkalýðshreyfingarinnar, en ákvörðun um slíkar breytingar sé í höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa á Alþingi.

„Við settum það inn í okkar yfirlýsingu í tengslum við endurskoðun kjarasamninga frá því í vor, að meðal annars hafi verið tekin ákvörðun um að hækka atvinnuleysisbætur og greiðslur úr ábyrgðarsjóði launa. Við settum líka inn í þá yfirlýsingu að við myndum huga sérstaklega að lágtekjuhópum og lægri millitekjuhópum í breytingum á skatt- og bótakerfum. Þar með erum við í raun og veru að hlusta eftir þeim sjónarmiðum sem verkalýðshreyfingin hefur haldið á lofti. Þó að Alþingi sé sem löggjafarvaldið endanlegur vettvangur þessara ákvarðana, þá finnst okkur mikilvægt að hlusta eftir þeim sjónarmiðum sem þarna koma fram. Það koma einnig fram sjónarmið frá hinni hliðinni, hlið atvinnurekenda, sem hefur til dæmis talað sterklega fyrir lækkun tryggingagjalds. Við hlustum því eftir sjónarmiðum þessara aðila við okkar ákvarðanatöku."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .