Neytendasamtökunum hefur verið bent á að nú liggi frammi í einhverjum skólum landsins auglýsingar frá fyrirtækinu 66°Norður þar sem börnum er boðið að taka þátt í myndbandakeppni grunnskóla. Menntamálaráðherra er meðal þeirra sem taka þátt í að velja verðlaunamyndina.

Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna í dag.

Þar segir að ef reglur keppninnar eru skoðaðar á heimasíðu fyrirtækisins sést að ekki er beinlínis um myndbandakeppni (með tilheyrandi listrænu frelsi) að ræða heldur fremur auglýsingagerð fyrir 66°Norður.

„Myndin má aðeins vera mínúta að lengd, sem er raunar heppilegur tími fyrir sjónvarpsauglýsingu,“ segir á vef samtakanna.

Þá kemur einnig fram að fyrirtækið leggi ekki til föt vegna auglýsingagerðarinnar, heldur verði börnin að nýta eigin fatnað.

„Við þetta er ýmislegt að athuga,“ segir á vef Neytendasamtakanna.

„Í fyrsta lagi virðist sem verið sé að nýta grunnskólabörn landsins (keppendur mega vera allt niður í sex ára gamlir) til auglýsinga og það að foreldrum forspurðum. Í annan stað, þar sem auglýsingin á að snúa að tveimur nánar tilgreindum fatalínum, virðist ætlast til að börnin eigi, eða kaupi, slíkan fatnað. Þá er með markaðssetningu af þessu tagi verið að gefa visst fordæmi og engin leið er að sjá fyrir þær samkeppnir sem fyrirtæki geta hrint af stað meðal grunnskólabarna í framtíðinni.“

Að lokum kemur fram að Neytendasamtökin ítreki þá skoðun sína að skólabörn ættu ekki að verða fyrir markaðsáreiti af þessu tagi í skólanum