Kröfuhafar þrotabúa Kaupþings og gamla Landsbankans (LBI) gera ekki athugasemdir við launakostnað slitastjórna þeirra. Öðru máli gegnir um kostnað slitastjórnar Glitnis en fimm lífeyrissjóðir sem eiga kröfur í þrotabú bankans krefjast þess að þau Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson sem sitja í slitastjórninni endurgreiði í kringum 400 milljónir króna sem þau hafi oftekð sér í laun fyrir störf sín og fyrirtækja þeirra fyrir þrotabúið.

Greiðslur þrotabú Glitnis til Steinunnar og Eiríks, að viðbættum greiðslum vegna útseldrar vinnu fulltrúa þeirra, námu 842 milljónum króna frá því slitastjórnin var skipuð í maí árið 2009 og fram á mitt síðasta ár. Fram kemur í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti, í dag að ekki liggi fyrir hver launakostnaður hafi verið hjá slitastjórnum hinna bankanna.

Í Markaðnum kemur m.a. fram að leitað hafi verið eftir sundurliðuðum upplýsingum um rekstrarkostnað slitastjórna Kaupþings og LBI. Í svari Kaupþings komi fram að ítarlega hafi verið gerð grein fyrir rekstrarkostnaði á kröfuhafafundum auk þess sem finna megi efni af slíkum fundum á vefsvæði slitastjórnarinnar. Í svari LBI var vísað á vefsíðu þrotabúsins. Þar kom fram að heildarkostnaður við slitameðferðina jafngildi frá árinu 2009 fram á mitt síðasta ár 26,7 milljörðum króna. Þar af nam kostnaður við yfirstjórn LBI, þ.e. slitastjórn og skilanefnd bankans, 1,7 milljörðum króna. Kostnaður við aðkeypta sérfræðiþjónustu nam 13,3 milljörðum króna.