Fjórir síðustu seðlabankastjórar Bandaríkjanna segja í aðsendri grein í Wall Street Journal að pólitískt sjálfstæði seðlabankans sé fyrir öllu. Þau biðla til stjórnvalda þar í landi að horfa til hæfni og heiðarleika umsækjenda við skipun seðlabankastjóra á næsta tímabili, sem hefst árið 2022.

Sín á milli hafa þau Paul Volcker, Alan Greenspan, Ben Bernanke og Janet Yellen setið á stóli seðlabankastjóra í hartnær 40 ár. Þau segjast hafa þurft að taka erfiðar ákvarðanir þegar þau voru í embætti, og viðurkenna að þær hafi ekki alltaf verið þær réttu. Aðal málið sé hinsvegar að þær hafi verið byggðar á faglegu mati á aðstæðum með langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Sagan hafi ítrekað sýnt að hagkerfi séu sterkust þegar starfsemi seðlabankans byggi alfarið á traustum fræðilegum grunni og gögnum, og sé laus við pólitískan þrýsting.

Þótt Donald Trump Bandaríkjaforseti sé hvergi nefndur á nafn, er ljóst að ítrekuð gagnrýni hans á peningamálastjórn seðlabankans síðustu misseri er tilefni skrifanna. Auk gagnrýninnar hefur Trump að sögn skoðað leiðir til að segja sitjandi seðlabankastjóra, Jerome Powell – sem Trump skipaði sjálfur í embætti árið 2017 – upp störfum, eða lækka hann í tign.