Greiningardeildir Landsbankans og Kaupþings gagnrýna Seðlabanka Íslands fyrir aðgerðarleysi í gjaldeyrismálum. Eins og fjallað hefur verið um gerði tilkynnti Seðlabanki Bandaríkjanna í nótt að hann hefði gert gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Ástralíu.

Í Vegvísi Landsbankans segir að æskilegt væri að íslenski seðlabankinn gerði slíka samninga við erlenda seðlabanka.

„Gjaldeyrisskiptasamningarnir eru til þess fallnir að greiða fyrir virkni gjaldeyrismarkaða, styrkja fjármálastofnanir viðkomandi landa og styðja þar með við fjármálastöðugleika. Æskilegt væri að íslenski seðlabankinn gerði slíka samninga við erlenda seðlabanka,“ segir í Vegvísi. Þar er einnig bent á að samningur íslenska Seðlabankans við seðlabanka Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar um lánalínur sé ólíkur þeim samningum sem tilkynnt var um í nótt að því leyti að hann er viðbúnaðarráðstöfun sem ekki er gert ráð fyrir að verði nýtt nema fjármálastöðugleiki krefjist þess.

Í Hálffimm fréttum greiningardeildar Kaupþings er bent á að ástæðan fyrir tilveru Seðlabanka sé að tryggja lausafjárstöðu fjármálakerfisins. Það hljóti einkum að ná til gjaldmiðils viðkomandi þjóðar en við núverandi aðstæður hljóti skyldan einnig að ná til erlendra gjaldmiðla.

„Ljóst er að Seðlabanki Íslands gæti hæglega boðið upp á skammtímaskiptasamninga í evrum gegn íslenskum veðum til skamms tíma í senn - eins og bankar hafa í raun verið að gera óháð skiptasamningum við FED. Með því er unnið að fjármálalegum stöðugleika sem á verulega undir högg að sækja en þeir markaðsbrestir sem eru uppi á gjaldeyrismarkaði hljóta að teljast til óstöðugleika. Þessi framkvæmd hefur ekki aukakostnað í för fyrir sér fyrir Seðlabankann þar sem uppboð færi fram og bankarnir fengju evrur í hendurnar á markaðskjörum. Ekki yrði gengið á gjaldeyrisvaraforðann þar sem Seðlabankinn fengi evrurnar aftur í hendur í lok samningstímans. Að vísu er alltaf einhver mótaðilaáhætta til staðar en hins vegar ber bankinn nú þegar þessa áhættu í endurhverfum viðskiptum við íslenska banka. Helstu rökin fyrir því að veita ekki þessa fyrirgreiðslu er væntanlega sú að hún myndi vekja upp spurningar erlendra aðila um stöðu íslensku bankanna – og væntanlega vera túlkað sem veikleikamerki - og þannig vinna gegn fjármálastöðugleika. Hins vegar má velta fyrir sér af hverju Seðlabanki Íslands getur ekki fylgt fordæmi systurstofnanna sinna. Alla alþjóðlega banka vantar í augnablikinu aðgang að USD og EUR og afhverju þyrfti það að vera túlkað neikvætt fyrir íslenska banka við núverandi aðstæður?“ segir í Hálffimm fréttum.