Starfsmannafélag Alþjóðabankans hefur gagnrýnt það að fjármálastjóri bankans, Bertrand Badre, fái greiddar bónusgreiðslur á sama tíma og hann stendur fyrir stórfelldum sparnaðaraðgerðum hjá bankanum. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg um málið.

Um þessar mundir er stefnt að niðurskurði í bankanum til að spara sem nemur 400 milljónum bandaríkjadollurum. Í minnisblaði frá starfsmannafélaginu segir að það setji spurningamerki við að bónusgreiðslur séu greiddar til fjármálastjórans á sama tíma og almennir starfsmenn Alþjóðabankans eru beðnir um að færa fórnir fyrir bankann.

Samkvæmt ársreikningi bankans fékk Badre 379.000 bandaríkjadollara í árslaun á síðasta ári.