*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 6. mars 2021 12:49

Flugvallaráform í Skagafirði gagnrýnd

FÍA gagnrýnir hugmyndir um 4-5 milljarða framkvæmd til að gera flugvöll í Skagafirði að varaflugvelli fyrir alþjóðaflug.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) telur hugmyndir Miðflokksins um að gera Alexandersflugvöll á Sauðárkróki að varaflugvelli fyrir Keflavíkur- Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll vera með öllu óraunhæfar.

Þingflokkur Miðflokksins hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að þessi möguleiki verði kannaður til hlítar. Byggðarráð Skagafjarðar fangar hugmyndunum og segir landfræðilega legu Alexandersflugvallar og veðurfar á svæðinu með besta móti fyrir varaflugvöll.

Í umsögn FÍA segir að hið sama eigi við um marga aðra flugvelli. „Vandinn felst í því að ekki er grundvöllur fyrir reglubundnu áætlunarflugi stórra véla til vallarins, þannig að þeir innviðir og tækjabúnaður sem þyrfti til að sinna ætluðu hlutverki stæðu ónotaðir frá degi til dags,“ segir í umsögn FÍA.

Um leið bendir FÍA á að Isavia hafi áður áætlað að slíkt myndi kalla á 4-5 milljarða króna framkvæmdir við flugvöllinn hið minnsta. Á sama tíma sé um tveggja milljarða króna uppsöfnuð viðhaldsþörf á öðrum flugvöllum sem séu í reglulegri notkun. Því ætti fyrst að fara ná  „utan um þann alvarlega vanda sem er til staðar á þeim flugvöllum sem eru nú þegar í reglubundinni notkun“.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér