Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að allt stefni í að hið opinbera muni með auknum útgjöldum eyða því svigrúmi, sem myndast samhliða minnkandi framleiðsluspennu og hagvexti.

„Við sjáum ekki betur en að hið opinbera ætli sér að taka þetta svigrúm allt til sín með því að auka útgjöld umfram það sem áður var áætlað. Það er dregið úr fjárlagaafganginum miðað við það sem var áætlað og ef ríkisfjármálastefnan er skoðuð þá er einnig dregið úr aðhaldi í rekstri ríkissjóð á næstu fimm árum. Þannig það er það sem við erum að benda á, að öllu öðru óbreyttu ætti að vera þörf fyrir minna aðhald hjá Seðlabankanum en þetta svigrúm sem skapast ætlar ríkið að taka til sín,“ segir Sigurður í samtali við Viðskiptablaðið.

Viðskiptablaðið fjallaði um það í gær að í umsögn Samtaka iðnaðarins um fjárlagafrumvarpið segi að minni þörf sé á aðhaldi í hagstjórninni en Sigurður segir að þar sé verið að vísa í peningamálin og aðkomu Seðlabankans að hagstjórninni. Hið opinbera taki hins vegar það svigrúm til sín með auknum útgjöldum en samtökin gagnrýna slíka forgangsröðun.

„Við gerum það. Við teljum að það ætti að vera meiri áhersla á niðurgreiðslu skulda, fjárfestingar og forgangsröðun í rekstri hins opinbera. Þannig yrði dregið úr sóun, afgangurinn yrði meiri en raun ber vitni og vextir lægri,“ segir Sigurður.