Minni stofnfjáreigendur í sparisjóðnum AFL gagnrýna framkomu fulltrúa Arion banka á aðalfundi sjóðsins sem haldinn var í gær. Þeir telja boðun fundarins ólögmæta og eru óánægðir með að sami endurskoðandi fari yfir reikninga Arion banka og AFL sparisjóðs. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.

Arion banki á 94,5% hlutafjár í AFL sparisjóði. Boðað var til aðalfundar AFLs með bréfi dagsettu 10. apríl, viku áður en fundurinn var haldinn. Í kjölfar aðalfundarins í gær sendi Arion banki frá sér tilkynningu þess efnis að AFL hafi verið settur í söluferli.

Á meðal þess sem ákveðið var á fundinum var að breyta samþykktum AFLs þannig að Arion banki gæti notið atkvæðavægis í samræmi við hlutdeild sína í sjóðnum, en áður höfðu samþykktir sjóðsins kveðið á um að enginn stofnfjárhafi mætti fara með meira en 5% atkvæða. Það er meðal annars í þessu ljósi sem minni stofnfjáreigendur sjóðsins eru ósáttir við boðun fundarins. Telja þeir að þessi dagskrárliður hefði átt að liggja fyrir með meiri fyrirvara svo hægt hefði verið að búa sig undir hann.

Sami endurskoðandi

Í tilkynningu Arion banka í gær um að AFL hafi verið settur í söluferli kom fram að um nokkurra mánaða skeið hafi sjóðurinn ekki uppfyllt eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins. Morgunblaðið greinir frá því að síðan 2009 hafi 5,2 milljarðar króna verið afskrifaðir af útlánasafni AFLs. Það nemi um þriðjungi af bókfærðum eignum sjóðsins á ársreikningi 2013.

Á aðalfundinum í gær óskuðu minni stofnfjáreigendur AFLs eftir skýringum á því að eignasafn sjóðsins hafi verið niðurfært um 454 milljónir króna á síðasta ári. Í því samhengi bentu þeir meðal annars á að sami endurskoðandi færi yfir reikninga Arion banka og AFLs.