"Uppgjör Tæknivals fyrir síðasta ár þjónar sem þörf áminning fyrir notendur ársreikninga um að lesa allan reikninginn áður en ályktanir eru dregnar á grundvelli hans. Í skýrslu stjórnar kemur fram að í lok janúar hafi félagið selt verslunarsvið sitt og hafi söluhagnaður þess numið 1.049 m.kr. og verið færður meðal rekstrartekna í rekstrarreikningi. Eflaust þætti ýmsum eðlilegra að félagið greindi betur á milli áframhaldandi starfsemi, aflagðrar starfsemi og söluhagnaðar í reikningum sínum, en aðferðin við gerð reikningsins nú er þó fullkomlega leyfileg," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Þar er ennfremur bent á að í reikningnum nú er söluhagnaðurinn færður sem aðrar tekjur. Í reikningnum kemur einnig fram að seldar vörur og þjónusta hafi numið 1.482 m.kr. króna og sé EBITDA reiknuð útfrá þeirri veltu, eins og eðlilegt verður að teljast, er hún neikvæð um 177 m.kr. en var neikvæð um 89 m.kr. árið áður. Tap fyrir skatta af reglulegri starfsemi er þá 250 m.kr. samanborið við 351 m.kr. tap árið áður.

Í Hálffimm fréttum KB banka er bent á að við söluna á verslunarsviðinu hefur orðið mikil breyting á efnahagsreikningi félagsins, heildareignir lækka úr 1.429 m.kr. í 661 m.kr. Stærsta bókfærða eign félagsins er reiknuð skattainneign að fjárhæð 228 m.kr. til samanburðar er eigin fé félagsins 250 þúsund krónur. Eins og áður hefur verið minnst á í Hálffimm fréttum gera endurskoðendur félagsins fyrirvara við áritun sína. Í árituninni segir ?Samkvæmt efnahagsreikningi er eigið fé félagsins jákvætt um 250 þús. kr. Meðal eigna í efnahagsreikningi er reiknuð skattinneign að fjárhæð 228 millj. kr. vegna yfirfæranlegs skattalegs taps félagsins. Forsendur þessarar eignfærslu eru þær að félaginu takist að nýta tapið á móti hagnaði á næstu árum og er ásreikningurinn að öðru leyti miðaður við áframhaldandi rekstur félagsins. Stöðvist reksturinn verður að gera ráð fyrir að minna fáist fyrir eignir þess en þær eru bókfærðar á."

"Í frétt félagsins er hins vegar bent á að viðskiptavild sé ekki færð í reikningum félagsins, þar segir ?Verðmæti viðskiptavildar er færð 0 kr. í reikningum félagsins en endurspeglar ekki þau verðmæti sem felst í viðskiptavild félagsins að mati stjórnar Tæknivals hf." Ómögulegt er að sjá, að mati Greiningardeildar, hví viðskiptavild ætti að vera færð í reikning félagsins. Viðskiptavild er söguleg stærð sem myndast við kaup á öðrum félögum, stærð sem reksturinn þarf að standa undir, en ekki verður séð að rekstur Tæknivals árið 2004 standi undir mikilli viðskiptavild. Að mati Greiningardeildar er frétt félagsins ekki í miklu samræmi við það tilefni sem ársreikningurinn gefur," segir í Hálffimm fréttum.

Um framtíðina segir í frétt félagsins ?Velta fyrirtækisins var stöðug árið 2004 og var að aukast í lok ársins, framlegð jókst í lok ársins og er stöðug í byrjun árs 2005. Viðsnúningur er fyrirsjáanlegur í rekstri fyrirtækisins en tekur lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir vegna aukins kostnaðar við sölu verlsunarsviðs og síðan innleiðingu nýrra vörumerkja á árinu."