Félag atvinnurekenda telur að drög að frumvarpi Óttars Proppé heilbrigðisráðherra um rafrettur séu illa undirbúin og rökstudd. „Félagið telur skorta rök fyrir viðurhlutamiklu inngripi í athafnafrelsi fólks, sem felist í banni við notkun rafretta á tilteknum stöðum og að rafrettur og áfyllingarílát megi ekki vera sýnileg í verslunum,“ segir í frétt Félags atvinnurekenda um málið.

Félagið hefur áður sent velferðarráðuneytinu umsögn um drög að frumvarpinu. FA fagnar því að það sé settur lagarammi um rafsígarettur, en er gagnrýnið á ýmsa þætti frumvarpsdraganna.

Í fyrsta lagi segir FA að engin greinargerð fylgi frumvarpsdrögunum og því sé engin leið til að sjá hvaða greinar frumvarpsins eiga rætur að rekja til Evróputilskipunar.

Í öðru lagi bendir FA að mjög skiptar skoðanir séu um rafsígarettur og skaðsemi og skaðleysi þeirra, meðal annars meðal lækna. „Frumvarpinu fylgi ekkert mat ráðuneytisins á rannsóknum og álitum læknasamfélagsins,“ segir í greininni.

Í þriðja lagi gagnrýnir FA að án rökstuðnings skuli vera lagt til að sömu takmarkanir verði á notkun rafsígaretta og reyktóbaks og óheimilt sé að nota þær á tilteknum stöðum.

„Loks fer FA fram á að verði frumvarpsdrögin að lögum verði gefinn mun lengri aðlögunartími fyrir innflytjendur og seljendur rafsígaretta en þar er gert ráð fyrir, svo fyrirtækin geti gert áætlanir í samræmi við nýtt regluverk,“ er tekið fram í greininni.

Þar er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, að þetta plagg heilbrigðisráðherra virðist illa undirbúið og lítið hugsað. „Það er ástæða til að vinna þetta mál mun betur og draga úr þeim inngripum í athafna- og atvinnufrelsi sem felast í frumvarpsdrögunum,“ bætir hann við.