Alþýðusamband Íslands gagnrýnir hækkanir á gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands harðlega. Hækkanirnar séu langt umfram almennar verðlagshækkanir og þau fyrirheit sem stjórnvöld gáfu um aðhald í verðlagsmálum í upphafi árs.

Í tilkynningu frá ASÍ segir að gjaldskrá fyrir rannsóknir og sérfræðilæknisþjónustu hafi hækkað óvænt þann 7. júlí. Hækkunin komi í kjölfar mikilla hækkana á heilbrigðisþjónustu í upphafi þessa árs.

Bent er á að komugjöld til sérfræðinga hafi hækkað um tæplega 4% að þessu sinni og þá hafi sérfræðilæknisþjónusta hækkað um ríflega 23% frá áramótum. Jafnframt hafi gjöld vegna rannsókna, röntgengreiningar og beinþéttnimælinga hækkað um 9-12% í júlí og alls um 20-25% frá áramótum. Þá hafi sú upphæð sem þarf að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu áður en gefið er út afsláttarkort hækkað talsvert.

Í tilkynningu frá Alþýðusambandinu segir:

„Vaxandi greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu leggst þungt á sjúklinga og tekjulága hópa sem hætta er á að hindri aðgengi að þjónustunni og auki misskiptingu. Þetta er verulegt áhyggjuefni.“