Viðskiptaráð segir að skattbyrði af raunávöxtun verði sú hæsta á Norðurlöndunum eftir hækkun fjármagnstekjuskatts í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið. Það sé vegna þess að verðbólga sé alla jafna hærri hér á landi en í nágrannalöndunum og því verði skattprósentan meira íþyngjandi heldur en einfaldur samanburður á skatthlutföllum gefi til kynna. Þannig sé nauðsynlegt að endurskoða stofn fjármagnstekjuskatts.

Fjármagnstekjuskattur - samanburður við Norðurlönd
Fjármagnstekjuskattur - samanburður við Norðurlönd
© Skjáskot (Skjáskot)

Auk þess bendir Viðskiptaráð á að varhugavert sé að auka útgjöld til málaflokka án þess að ráðist sé í mótvægisaðgerðir, hvort sem er á útgjalda- eða tekjuhliðinni, en lítið virðist vera um slíkt á framlögðum fjárlögum. Seðlabankinn hafi nýlaga varað við því að aukin útgjöld ríkissjóðs muni ganga á viðskiptajöfnuð og leiða til hærri vaxta og verðbólgu.

Þá segir jafnframt í umsögninni að greinarmun þurfi að gera á rekstri og fjárfestingu og frá árinu 2007 verði ekki betur séð en að forgangsröðun hafi frekar verið í átt að rekstri en fjárfestingu á tímabilinu. Höggið af háum fjármagnskostnaði hafi fyrst og fremst bitnað á fjárfestingu og ljóst sé að umtalsverð uppsöfnuð fjárfestingarþörf sé í kerfinu. Ein afleiðing vanfjárfestingar sé dýrari rekstur í framtíðinni.

Ennfremur sjáist að stór hluti útgjaldaaukningar ríkissjóðs fari í launa- og verðlagsbætur. Til að mynda sé um fjórðungur af aukningu í fjárveitingu milli 2017 og 2018 í heilbrigðismálum til komin vegna launa- og verðlagsbóta en þar vega launin langþyngst enda hafi verið lág verðbólga tímabilinu. Í menntamálum sé hlutfallið nærri 40%.

Þá segir Viðskiptaráð að nauðsynlegt sé að heildarstefna fylgi auknum fjárveitingum í mennta- og heilbrigðismál svo tryggja megi að hærri framlög skili árangri en einnig kallar Viðskiptaráð eftir tryggingagjaldið verði lækkað.

Umsögnina má lesa í heild sinni hér.