Samiðn, samband iðnfélaga, gagnrýnir harðlega stöðu iðnnáms hér á landi, nú þegar 700 umsækjendur fá ekki inngöngu í iðnnám. „Átján ára og eldri eiga nánast engan möguleika á að komast í iðnnám og er það algerlega óviðunandi,“ segir í ályktun frá miðstjórn Samiðnar.

Í frétt á vef Samiðnar segir að umsóknir í starfsnám, m.a. í iðnnám, á vorönn 2021 voru 52,2% af heildarfjölda umsókna í framhaldsskóla en að sama skapi var höfnunarhlutfallið þar einnig hæst eða 19,7% samkvæmt könnun Menntamálastofnunar.

„Hér þarf að gera betur og tryggja þeim sem hafa áhuga á starfsnámi tækifæri til að hefja sitt nám,“ segir sambandið. „Ljóst er að iðnnám þarf að skipa hærri sess hjá stjórnvöldum, ekki bara á orði heldur líka á borði.“

Að sama skapi gerir Samiðn athugasemdir við þá vegferð sem stjórnvöld eru í varðandi afnám löggildingu í ákveðnum iðngreinum, en það voru tillögur sem OECD lagði til í skýrslu sem var birt í nóvember 2020. „Það vekur athygli að OECD horfði í skýrslu sinni eingöngu til iðngreina, en ekki annarra stétta sem búa við lögverndun. Enn og aftur er því verið að ráðast að iðngreinum,“ segir í tilkynningu Samiðnar.

Sambandið segir að þetta máli sýni hversu ósamstíga stjórnvöld séu í þessum málaflokki þar sem Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hafi talað um mikilvægi iðnnáms en á sama tíma sé Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnu- og nýsköpunarráðherra í vegferð að vega að löggildingu iðnaðarmanna.

„Hér er einnig um brýnt neytendamál að ræða. Neytendur verða að geta gengið að því vísu að að þjónusta iðnaðarmanna uppfylli gæðakröfur. Mikilvægt er að tryggja að þeir sem starfi á þessu sviði séu hæfir til að sinna þeim störfum og hafi lokið viðeigandi námi sem viðurkennt er af yfirvöldum. Það gefur augaleið að afleiðingar af óviðunandi þekkingu og hæfni til að vinna þau störf geta verið mjög alvarlegar.“