Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýna harðlega ákvörðun Landsbankans um að reisa nýjar höfuðstöðvar við Hörpu í Reykjavík. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í morgun. Þá ítreka þeir báðir að Landbankinn sé ríkisbanki og því óheppilegt að hann standi í byggingu 15 þúsund fermetra höfuðstöðvar um þessar mundir. Guðlaugur bætir því m.a. við að „það síðasta sem við eigum að fara í eru höfuðstöðvar og bankabónusar.“

Í tilkynningu sem Landsbankinn sendi frá sér um fyrirhugaða byggingu nýrra höfuðstöðva í ágúst í fyrra sagði að framkvæmdin væri liður í því að hagræða í starfsemi bankans til lengri tíma. Frosti Sigurjónsson, sem er einnig formaður Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að nýjar höfuðstöðvar myndu senda slæm skilaboð út í alþjóðasamfélagið. „Hér varð bankahrun fyrir stuttu og mikill fjöldi fólks hefur tapað gríðarlegum peningum á bankaviðskiptum á Íslandi og einnig erlendir aðilar,“ segir Frosti. „Hvaða skilaboð eru það að ríkisbankinn byggi sér glæsilegar höfuðstöðvar á dýrasta stað? Það eru röng og óheppileg skilaboð út í alþjóðasamfélagið.“