Hvort tveggja Blaðamannafélagið sem og Gagnsæi - samtök gegn spillingu gagnrýna lögbann Sýslumanns á notkun Stundarinnar og Reykjavík Media á gögnum sem fengust frá slitabúi Glitnis. „Bankaleynd þjónar engum nema þeim sem hafa eitthvað að fela!,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands á vef félagsins en þar segir að lögbann á slík gögn afar fátítt.

„Við mótmælum og fordæmum þessar aðgerðir og teljum að sýslumaður eigi ekkert erindi inn á ritstjórnarskrifstofur íslenskra fjölmiðla. Þessar aðgerðir eru aðför að tjáningarfrelsi fjölmiðla og rétti blaðamanna að afla sér gagna og vinna úr þeim.“ Blaðamannafélagið segir að sambærilegt mál hafi komið upp árið 2009 þegar krafist var lögbanns á lánabók Kaupþings, en sú krafa hafi fengið dræmar undirtektir.

Lögbann samþykkt á tölvupósta Jónínu

Sama var síðan upp á teningnum fyrir tólf árum þegar í október 2005 lögbann fékkst á notkun Fréttablaðsins á tölvupóstum Jónínu Benediktsdóttur sem Fréttablaðið hafði undir höndum.

Líkt og nú mótmælti Blaðamannafélagið þeirri ákvörðun og eftir að málið hafði gengið alla leið upp í Hæstarétt kom úrskurður um að birting á innihaldi tölvupóstanna væri heimil þar sem þeir vörðuðu þjóðfélagslega mikilvægt mál og ættu erindi til almennings. Hins vegar hafi aðrir þættir úr póstunum sem birtust í DV ekki varðað slíka hagsmuni og því væri birting þeirra óheimil.

Gagnsæi - samtök gegn spillingu segir lögbann Sýslumannsembættisins aðeins vera til þess fallið að rýra enn frekar traust almennings á stjórnmálum og stjórnmálamönnum. „Það grefur þar að auki undan trausti á réttarvörslukerfinu, sem hingað til hefur að mestu haldið trausti almennings,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.