Skeljungur hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla, sem höfð voru eftir Eggerti Þór Kristóferssyni, forstjóra N1,  í viðtali í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn.

Meðal þess sem forsvarsmenn Skeljungs gagnrýna er sú staðhæfing forstjórans að N1 sé með breiðari rekstur en samkeppnisaðilar. Í yfirlýsingunni frá Skeljungi er bent á að stór hluti af starfsemi Skeljungs sé í Færeyjum og því er stór hluti tekna Skeljungs í erlendum gjaldmiðli.

Jafnframt er fullyrðing forstjórans um að allt verslunarhúsnæði Skeljungs sé leigt undir verslanir 10-11 gagnrýnd en bent er á að Baskó sé við 12 af 65 bensínstöðvum Skeljungs. Einnig er bent á að Skeljungur sé minnihlutaeigandi í Heimkaup og Bland en eigi ekki alla eignarhluti í þeim félögum.

„Forstjórinn talar um minnkandi olíunotkun á næstu áratugum. Orkuspárnefnd spáir aftur á móti frekari aukningu í olíunotkun næstu áratugina. Telur nefndin að aukningin verði helst í millilandanotkun, þ.e. í olíu á flugvélar og skip, en Skeljungur er einmitt leiðandi í sölu á olíu til alþjóðlegra skipa á N-Atlantshafinu,“ segir í yfirlýsingunni.

Í lokin er tekið fram að Skeljungur muni ásamt Sýn hf. halda Kauphallardag í Færeyjum hátíðlegan þar sem stefna félagsins mun vera kynnt nánar.

Yfirlýsingin frá Skeljungi í heild sinni:

„Í viðtali við Eggert Þór Kristófersson, forstjóra N1, í Viðskiptablaðinu þann 16. ágúst sl., er farið þónokkrum orðum um starfsemi Skeljungs. Forsvarsmenn Skeljungs eru þakklátir fyrir að hafa fengið brot af sviðsljósinu en vildu gjarnan fá af því ögn meira með því að koma eftirfarandi leiðréttingum og athugasemdum á framfæri:

Samkvæmt forstjóra N1 er N1 með breiðari rekstur en samkeppnisaðilar þess. Í því sambandi vill Skeljungur benda á að stór hluti starfsemi Skeljungs fer fram erlendis, í Færeyjum, og er stór hluti tekna Skeljungs þannig í erlendum gjaldmiðli, það er danskri krónu. Skeljungur er þannig ekki einungis háður íslenska markaðinum, sem dregur úr áhættu félagsins.

Forstjórinn talar um minnkandi olíunotkun á næstu áratugum. Orkuspárnefnd spáir aftur á móti frekari aukningu í olíunotkun næstu áratugina. Telur nefndin að aukningin verði helst í millilandanotkun, þ.e. í olíu á flugvélar og skip, en Skeljungur er einmitt leiðandi í sölu á olíu til alþjóðlegra skipa á N-Atlantshafinu. Aftur á móti er gert ráð fyrir minnkandi olíusölu á bifreiðar í tengslum við aukna nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi. Forstjóri N1 er sammála Skeljungi og ON að erfitt verði að rafbílavæða allt landið, einungis með rafmagnsbílum. Skeljungur og ON hafa hins vegar bent á að með rafknúnum vetnisbílum til viðbótar við rafmagnsbíla verður það mögulegt. Skeljungur opnaði í sumar tvær vetnisstöðvar og sú þriðja verður opnuð á Miklubraut í kringum áramótin. Miklabraut verður þá sannkölluð fjölorkustöð, með vetni, rafmagni, metani og olíu, til þess fallin að sinna þörfum allra bifreiðaeigenda óháð orkugjafa. Fólk mun áfram þurfa að komast leiðar sinnar.

Hvað varðar smásölumarkaðinn þá er ekki rétt að allt verslunarhúsnæði Skeljungs sé leigt undir verslanir 10-11. Baskó er með verslanir við 12 stöðvar af 65. Þá er Skeljungur minnihlutaeigandi í Heimkaup og Bland en á ekki alla eignarhluti í þessum félögum. Eins og forstjóri N1 kemur sjálfur inn á metur fólk nú frítíma sinn betur en fyrri kynslóðir. Skeljungur hefur því undanfarið unnið að því að útfæra metnað félagsins fyrir því að gera viðskiptavinum sínum kleift að spara peninga yfir á það að spara einnig tíma. Sú vinna tengist t.d. Heimkaupum og Eldum rétt. Afhendingar vara á stöðvum Orkunnar mun bæði spara tíma viðskiptavina félagsins og auka verðmæti lóðanna. Sú staðreynd sem forstjóri N1 nefnir að Skeljungur eigi fleiri stöðvar á höfuðborgarsvæðinu er að mati Skeljungs ekki neikvæð enda eru lóðir á höfuðborgarsvæðinu verðmætar.

Skeljungur er nákvæmlega í þeirri stöðu sem félagið vill vera í, með tekjustofna í fleiri en einni mynt og frá fleiri löndum, með áherslu á vaxandi markaði og metnað fyrir því að spara neytendum tíma og fjármuni.

Dagana 25.-26. september mun Skeljungur, ásamt Sýn hf., halda kauphallardag í Færeyjum, þar sem stefna félagsins verður kynnt nánar.“