Að mati Greiningadeildar KB banka vekur það nokkra athygli að Flugleiðir hafi minnkað upplýsingagjöf sína og birti m.a. ekki mánaðarlega þróun framboðs og sætanýtingar hjá Icelandair, sem er langstærsta dótturfélag samstæðu Flugleiða. Að mati deildarinnar er minni upplýsingagjöf varla til þess fallin að auka áhuga fjárfesta á bréfum félagsins en eftir miklar breytingar á eignarhaldi félagsins hefur flot á bréfum félagsins minnkað verulega.

"Það væri því kannski nær að félagið auki upplýsingagjöf sína þar sem áhuginn á félaginu hefur minnkað og viðskipti með bréf þess fátíð og vart hægt að segja að eðlileg eignarmyndun sé með bréfin í Kauphöllinni," segir í Hálffimm fréttum KB banka.