Stjórnendur bandaríska risabankans Citigroup gagnrýna Nasdag-kauphallarinnar harkalega vegna skráningar Facebook á markað í maí. Í bréfi sem stjórnendur bankans sendu bandaríska fjármálaeftirlitinu (SEC), segir að þeir sem sáu um viðskiptin hafi vitað fyrirfram að kauphallarkerfið gæti ekki höndlað veltu með bréfin. Í bréfinu segir m.a., að stjórnendur Nasdaq hafi átt að láta markaðsaðila vita að kauphöllin væri í vandræðum með skráninguna. Það gerðu þeir hins vegar ekki. Nasdaq hefur boðist til að greiða bætur vegna málsins.

Tæknilegir erfiðleikar hjá Nasdaq á fyrsta degi viðskipta með hlutabréf Facebook ollu því að skráningunni var seinkað um hálftíma. Fjöldi fjárfesta tapaði háum fjárhæðum vegna þessa. Í netútgáfu breska dagblaðsins Telegraph af málinu segir að tap Citigroup þennan fyrsta viðskiptadag nemi 20 milljónum dala, jafnvirði 2,4 milljarða íslenskra króna.

Tap bankans er smáræði miðað við aðra. Þar á meðal hefur alþjóðabankinn UBS tapað rúmum 350 milljónum dala á Facebook-bréfum sínum. Það jafngildir 42 milljörðum íslenskra króna. Bankinn íhugar að fara með málið fyrir dóm.

Mikil eftirvænting hafði skapast í aðdraganda skráningar Facebook á markað áður en hlutabréf félagsins voru tekin til viðskipta í maí. Gengi félagsins hefur hins vegar verið þvertöfugt við þær. Gengið stóð í 38 dölum á fyrsta degi en hefur hrunið um tæp 50% síðan þá.