Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Sigurður Kári Kristjánsson og Pétur Blöndal  gagnrýna orkufrumvarp það er Iðnaðarráðherra hefur nýlega mælt fyrir á Alþingi.

Sigurður Kári sagði í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins að hann efaðist um hvort löggjafinn væri á réttri leið með frumvarpinu.

Í frumvarpinu er kveðið á um að opinberum aðilum sé óheimilt að framselja vatns- og jarðhitaréttindi sín en í ákveðnum tilfellum megi leigja réttindin til 65 ára í senn.

„Ég hef efasemdir um að það sé skynsamlegt að banna opinberum aðilum að framselja vatns- og jarðhitaréttindi sín til allrar framtíðar,“ sagði Sigurður Kári.

REI spurningum enn ósvarað

Hann segir einnig að þeim spurningum sem komu upp í REI málinu í haust sé enn ósvarað og frumvarp iðnaðarráðherra svari þeim ekki. Þá segir hann að ekki liggi fyrir hvaða reglur eigi að gilda um það hvort og hvernig hið opinbera stýri því fjármagni sem notað kann að vera til áhættufjárfestinga erlendis.  Að lokum telur Sigurður Kári að frumvarpið rýri verðgildi auðlinda.

Í kvöldfréttum RÚV kom einnig fram að Pétur Blöndal teldi ekki rétt að auðlindi eigi að vera samkvæmt lögum í eigu hins opinbera.