Í Morgunkorni Íslandsbanka er fjallað um sölu Eimskips til Avion Group með gagnrýnum hætti og bent á að lítið yfirverð sé á félaginu og salan sé á milli viðskiptafélaga í Samson. Greining Íslandsbanka lauk við verðmat á Burðarási í gær. Þar er eign Burðaráss í Eimskip metin á 21,2 ma.kr. eða einungis 2% lægra en söluverðið til Avion. Verðmat á Burðarási að teknu tilliti til söluverðsins á Eimskip er 11,8 krónur á hlut. Fyrr í morgun var greint frá sölu á Eimskip til Avion Group. Söluverð 94% eignarhlutar Burðaráss er 21,6 ma.kr. sem greitt er með peningum (12,7 ma.kr.) og hlutabréfum í Avion (8,9 ma.kr.).

Í Morgunkorninu er bent á að ekki er lengra síðan en í febrúar að forsvarsmenn Burðaráss sögðu að "ekki væri áformað að selja Eimskip að sinni, enda þótt fjölmargir aðilar hafi látið í ljós áhuga á að kaupa félagið." Unnið væri að því að skrá félagið á hlutabréfamarkað. "Nú segja forsvarsmenn Burðaráss að salan til Avion sé í samræmi við áform um skráningu Eimskips í Kauphöllina því stefnt sé að skráningu Avion fyrir lok janúar 2006. Þessu erum við ekki fyllilega sammála því á þennan hátt verður Eimskip ekki skráð eitt og sér heldur verður áfram hluti af stærri fyrirtækjasamstæðu á markaði. Eimskip verður því ekki valkostur sem fjárfestum stendur til boða einn og sér. Hluthafar Burðaráss munu, ef hluthafafundur samþykkir, fá hlut í Avion sem arðgreiðslu frá Burðarási og með því móti verða hluthafar Avion fjölmargir," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þá vekur Greining Íslandsbanka athygli á að viðskiptin eru öll innan vébanda Samsonar. "Aðaleigandi Avion er, sem kunnugt er, Magnús Þorsteinsson sem jafnframt er stjórnarformaður Eimskips og seldi á dögunum hlut sinn í Samson til meðeigenda sinna, þeirra Björgólfs Thors Björgólfssonar (m.a. stjórnarformaður Burðaráss) og Björgólfs Guðmundssonar (m.a. stjórnarformaður Landsbankans, sem var ráðgjafi Burðaráss við söluna). Viðskiptin eru því öll innan vébanda Samsonar," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.