Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök iðnaðarins (SI) hafa í dag brugðist hart við ummælum Aðalsteins Hákonarsonar, forstöðumanns eftirlitssviðs ríkisskattstjóra í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Þannig segja samtökin Aðalstein hafa fjallað með niðrandi hætti um starfsemi Ölgerðarinnar sem í vikunni þurfti að segja upp 30 manns vegna skattastefnu ríkisstjórnarinnar.

Í tilkynningunni frá Ölgerðinni í morgun segir að Aðalsteinn hafi sakað Ölgerðina um að ljúga til um raunverulegar ástæður erfiðra uppsagna. Í sömu tilkynningu frábiður Ölgerðin sér slíkar vangaveltur en jafnframt er tekið fram að félagið sé í skyldum með allar sínar skuldbindingar.

Í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins segir að það sé með miklum ólíkindum hvernig yfirmaður eftirlitssviðs ríkisskattstjóra dylgjar um rekstur og ákvarðanir einstaks fyrirtækis og stjórnenda þess.

Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri SI segir Ölgerðina vera dæmi um fyrirtæki sem skattlagning ríkisstjórnarinnar bitni þungt á.

„Það segir til sín í sölutölum og enn ætlar ríkisstjórnin að bæta í og leggja enn meiri skatta á þessar vörur. Ölgerðin hefur því neyðst til að bregðast við með þungbærum aðgerðum, m.a. með uppsögnum starfsfólks,“ segir Jón Steindór á vef SI.

SI segja Aðalstein hafa farið langt út fyrir verksvið sitt sem hugsast getur og rýri vægast sagt það traust sem nauðsynlegt er að skattgreiðendur beri til skattyfirvalda.

Samtök atvinnulífsins taka í sama streng í yfirlýsingu á síðunni sinni og segja Aðalstein hafa fjallað um Ölgerðina með niðrandi hætti.

„Ef þessi málsmeðferð er ný stefna af hálfu embættisins markar það þáttaskil í opinberri umræðu hér á landi,“ segir á vef SA.   „Það getur ekki samræmst hlutverki opinbers embættismanns að fjalla um málefni einstakra fyrirtækja og varpa rýrð á þau. Samtök atvinnulífsins fordæma þessi vinnubrögð og treysta því að þau verði ekki endurtekin.“

Sjá nánar á vef SI og SA .