Samtök atvinnulífsins (SA), Viðskiptaráð Íslands (VÍ) og Samtök iðnaðarins (SI) gagnrýna of lítinn afgang, óraunhæfar efnahagslegar forsendur og vaxandi umsvif hins opinbera í fjármálastefnu ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Samtökin hafa skilað inn umsögnum til fjárlaganefndar um þingsályktunartillögu að fjármálastefnu fyrir árin 2018 til 2022. Er þar einnig að finna athugasemdir er lúta að upplýsingagjöf, forgangsröðun útgjalda og efnahagslegum úrlausnarefnum.

Í grófum dráttum gefur fjármálastefna ríkisstjórnarinnar til kynna meiri slökun á aðhaldi opinberra fjármála en ráðgert var í fjármálastefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Útgjöld verða aukin og afgangur verður minni, á sama tíma og engin áform eru uppi um að styrkja tekjugrunn ríkisins. Umsvif ríkisins verða einnig meiri á kjörtímabilinu en áður var gert ráð fyrir. Þá er sett markmið um að heildarskuldir hins opinbera fari jafnt og þétt lækkandi.

Búa ekki nógu vel í haginn

Fjármálastefna ríkisstjórnarinnar er lögð fram í kjölfar mikils efnahagslegs uppgangs. Tekjustofnar hafa vaxið hratt og tekjur hins opinbera hafa aldrei verið meiri. SA og VI gagnrýna hins vegar að fyrirhugaður rekstrarafgangur minnki og að hann sé of lítill.

SA bendir á í umsögn sinni að óvissa ríki í innlendum efnahagsmálum um þessar mundir og að greina megi vísbendingar um að það hægi hratt á vexti hagkerfisins. Ábyrgðarlaust sé að búa ekki betur í haginn þegar uppsveiflan tekur enda, auk þess sem stjórnvöld geti ekki lengur treyst á mikinn tekjuvöxt til að fjármagna útgjöld.

Í umsögn VI er bent á að aukinn afgangur af rekstri hins opinbera í heild skýrist nær alfarið af betri afkomu opinberra fyrirtækja. Gerir ráðið athugasemd við það að nánast engin rök séu færð fyrir bættri afkomu opinberra fyrirtækja og að óábyrgt sé að treysta um of á afkomu fyrirtækja þegar kemur að rekstri hins opinbera. Jafnframt veltur VI því upp hvort slaknandi aðhald ríkisfjármála muni í nánustu framtíð kynda undir verðbólgu og þenslu. Það varpar ábyrgðinni yfir á peningastefnuna og kallar á hærra vaxtastig en ella. Verður það að þykja nokkuð skondið í ljósi þess að mikill pólitískur vilji hefur verið til staðar á Íslandi til að lækka vexti.

Óhófleg bjartsýni

Til grundvallar tekjuáætlun fjármálastefnunnar, og þar með afkomu ríkissjóðs og hins opinbera, liggur fyrir þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá nóvember síðastliðnum. Spáin gerir ráð fyrir samfelldum hagvexti í kringum 2,5% næstu fimm árin. Það þýðir að fjármálastefnan gerir ráð fyrir að núverandi hagvaxtarskeið vari í tólf ár í hið minnsta, sem væri fordæmalaust í Íslandssögunni.

Spáin gerir einnig ráð fyrir góðu ytra og innra jafnvægi allan tímann; talsverðum launahækkunum, verðbólgu við verðbólgumarkmið, kröftugum kaupmáttarvexti, hækkandi raungengi krónunnar og afgangi af viðskiptajöfnuði.

SI telur bjartsýna hagspá Hagstofunnar hunsa lærdóma sögunnar. Hagvöxtur hér á landi hafi sveiflast á milli þess að vera 9,4% í að vera -6,5% á síðustu tveimur áratugum og að íslenskt hagkerfi sé eitt það sveiflukenndasta í heiminum meðal iðnríkja. Þannig sé óraunhæft í ljósi hagsögunnar að Ísland upplifi mesta stöðugleika sögunnar á næstu fimm árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .