Í Hálffimm fréttum sínum í dag gagnrýnir greiningardeild KB banka viðskiptin með bréf Orra Vigfússonar í Íslandsbanka. "Þegar viðskipti með jafn stóran hlut eiga sér stað dregur það óneitanlega úr trúverðugleika Kauphallarinnar að gengi viðskiptanna skuli ekki gefið upp," segir í Hálffimm fréttunum.

Í gær var greint frá því að 5,43% hlutur í Íslandsbanka hefði skipt um hendur eftir að Orri Vigfússon seldi allt hlutafé í Eignarhaldsfélaginu Urriða ehf. til Burðaráss. Um er að ræða sama hlut og Burðarás seldi Orra með framvirkum samningi í lok febrúar á þessu ári. Í kjölfarið fékk Orri sæti í stjórn bankans og þar með stöðu fruminnherja í bankanum.

"Í tilkynningu í Kauphöllinni í gær komu ofangreind viðskipti fram en verð á bréfum Íslandsbanka var ekki gefið upp. Í viðtali Morgunblaðið sagði Orri að hann vildi ekki gefa verðið upp en benti á að verðið hafi ?hækkað dálítið mikið á árinu." Þegar viðskipti með jafn stóran hlut eiga sér stað dregur það óneitanlega úr trúverðugleika Kauphallarinnar að gengi viðskiptanna skuli ekki gefið upp," segir greiningardeild KB banka.

Greiningardeildin bendir ennfremur á að ákveðnar reglur gildi um viðskipti fruminnherja með hlutabréf og er m.a. gerð krafa um lágmarks upplýsingaskyldu í slíkum viðskiptum (sbr. 47. og 48 grein í lögum um verðbréfaviðskipti). Í 48. grein segir m.a. að nafnverð og gengi skuli gefið upp. Eignarhaldsfélagið Urriði ehf. var stofnað 25. febrúar á þessu ári eða deginum áður en félagið keypti hlutabréfin af Burðarási (sem Burðarás hefur nú keypt tilbaka). "Því virðist sem Urriði ehf. hafi verið lítið annað en skel utanum bréf Íslandsbanka og vart hægt að halda fram að Burðarás hafi keypt annað en bréf í bankanum," segir Hálffimm fréttum.

Þar en einnig bent á að í 27. grein laga um verðbréfaviðskipti segir um flöggunarskyld viðskipti: ?Í tilkynningu skv. 2. mgr. skulu koma fram upplýsingar um nafn og heimilisfang flöggunarskylds aðila, nafnverð hlutafjár og hlutfall þess af heildarhlutafé félagsins, hlutabréfaflokk ef það á við, fyrir og eftir hin tilkynningarskyldu viðskipti, og á hvaða grundvelli viðkomandi varð tilkynningarskyldur skv. 28. gr., ásamt öðrum þeim upplýsingum sem viðkomandi skipulegur verðbréfamarkaður metur nauðsynlegar."

"Það er athyglisvert að þar er ekki getið um verð í viðskiptunum en hins vegar sagt að Kauphöllin geti farið fram á frekari upplýsingar sem hún metur nauðsynlegar. Það má furðu sæta að Kauphöllin hafi ekki farið fram á verðið í þessum viðskiptum.

Almennt miða reglur á hlutabréfamörkuðum að því að verðmyndun sé skýr, að jafnræði sé meðal fjárfesta og að upplýsingar til handa fjárfestum séu til þess fallnar að auka trúverðugleika markaðarins," segir í Hálffimm fréttum.