Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, var einn þeirra sem gerði miklar athugasemdir við ráðningu Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns Framsóknarflokksins, sem aðstoðarmaður forsætisráðherra.

Sagði Steingrímur að það samræmdist ekki hugmyndum um þrígreiningu ríkisvaldsins að þingmaður, sem samkvæmt stjórnarskrá væri ekki bundinn neinu nema sannfæringu sinni, ætti að lúta beinu boðvaldi ráðherra.

„Allt öðru máli gegndi ef viðkomandi maður færi í launalaust leyfi sem þingmaður og varamaður hans gegndi starfi hans hér á meðan,“ sagði Steingrímur. Hann sagði að Alþingi ætti að taka til skoðunar hvort þetta teldist eðlilegt fyrirkomulag.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagði sjálfsagt að fara yfir þessi mál. Hann benti þó á að þingmaðurinn myndi mæta til þingfunda og gegna skyldum sínum sem þingmaður á meðan hann starfaði í forsætisráðuneytinu. „Þannig að það sem snýr að Alþingi er að mati forseta viðunandi,“ sagði Einar K. Guðfinnsson. Hann sagði að ekkert væri við því að segja að þingmenn gegni störfum, launuðum eða ólaunuðum, utan Alþingis.