*

laugardagur, 14. desember 2019
Fólk 5. ágúst 2019 19:04

Gagnrýndi tónlist undir dulnefni

Sahara hefur ráðið söngkonuna Ólöfu Arnalds sem texta- og hugmyndasmið, en hún upplýsir leyndarmál fortíðar.

Höskuldur Marselíusarson
Ólöf Arnalds upplýsir hér með um dulnefnið sem hún notaði til að skrifa tónlistargagnrýni á sínum yngri árum, og býður þeim sem eiga harma að hefna að finna sig í fjöru.
Eva Björk Ægisdóttir

Ólöf Arnalds, nýr textaog hugmyndasmiður hjá Sahara, segir spennandi að hugsa út frá stafrænum miðlum í nýja starfinu, sem henti henni vel samhliða námi í stafrænni markaðssetningu í HR. „Ég er að gera allt frá slagorðum upp í langar bloggfærslur og það er mjög gott að geta gert hér, það sem maður lærir um í skólanum,“ segir Ólöf.

„Ég skrifa á ensku og íslensku, vinn hugmyndavinnu að herferðum á samfélagsmiðlum auk þess að lesa próförk. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því að skrifa, og þá á báðum tungumálum enda móðir mín fædd og uppalin í London, en ég fékk fyrst delluna þegar ég ritstýrði skólablaðinu í MH.“

Ólöf sem er einna þekktust fyrir farsælan söngferil sinn upplýsir jafnframt um aðra aðkomu að tónlistarlífinu en flestir þekkja. „Ég byrjaði tvítug að skrifa fyrir Moggann, tónlistargagnrýni sem ég gerði undir dulnefni, enda betra í þessum tónlistarheimi. Ég kallaði mig Ólöfu Helgu Einarsdóttur, svo ef einhverjir hafa viljað finna hana í fjöru geta þeir gert það núna,“ segir Ólöf.

„Ég var þó yfirleitt mjög mild í mínum dómum, það eina sem ég var viðkvæm fyrir voru vondar barnaplötur, þá móðgaðist ég fyrir hönd barnanna, og svo líka ef mér fannst vera farið illa með þjóðlagaarfinn. Ég var svo sjálf í heil tíu ár að ferðast um með mína eigin tónlist, en þegar ég fór að þreytast á því að þurfa að ferðast til að þéna fór ég að hugsa að það væri bæði fjölskylduvænna og betra fyrir sál og líkama að vera með aðeins staðbundnari lífstíl og núna finnst mér frábært að vera í níu til fimm vinnu.“

Ólöf lifir þó enn og hrærist í tónlistarmenningunni en hún rekur tónleikastaðinn Mengi með manni sínum, tónlistarmanninum Skúla Sverrissyni, og fleirum. „Hann er listrænn stjórnandi Mengis við Óðinsgötu, en þar geta tónlistarmenn, í staðinn fyrir að leigja dýrt húsnæði, setja upp hljóðkerfi og leigja hljóðmann og slíkt, gengið beint að öllu tilbúnu. Við vildum hafa þetta listamannavænt svo þeir borga ekki leigu heldur fá meirihluta innkomunnar af tónleikunum en við hluta í reksturinn,“ segir Ólöf sem utan tónlistarinnar nýtur sín með fjölskyldunni.

„Ég á einn strák sem er ellefu ára og eina stjúpdóttur sem er níu ára. Svo er ég alltaf að semja eitthvað og spila, núna næst spila ég á Airwaves og svo stefni ég á að gefa út plötu næsta vor. Síðan viðurkenni ég að ég hef alveg frá því ég var tólf ára gömul verið með þráhyggjukenndan áhuga á því að skoða fasteignir, aðallega í 101 Reykjavík, og hvernig verðið er að þróast.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.