Gagnrýni á boðaðar arðgreiðslur tryggingafélaganna er á misskilningi byggð að mati Óðins, pistlahöfundar Viðskiptablaðsins. Í Viðskiptablaðinu í dag fjallar Óðinn um arðgreiðslutillögur stjórna tryggingafélaganna og þá gagnrýni sem fram hefur komið á þær tillögur. Eftir að pistillinn birtist hefur stjórn Sjóvár breytt tillögu sinni um arðgreiðslu og ber að lesa pistilinn í því ljósi.

Óðinn segir það rangt að nýjar reikningsskilareglur hafi losað um fjárhæðir sem nú eigi að greiða til hluthafa.

„Hluti af þessum nýju reglum er breyting á tjónaskuld félaganna. Með breytingunum voru tekin úr tjónaskuldinni áhættuálög og væntar vaxtatekjur af fjármunum sem standa til ávöxtunar á skuldinni. Skuldin er því núvirt.. Tryggingaskuldin lækkaði því umtalsvert og af þeirri lækkun greiddu tryggingafélögin skatt. Sem dæmi má nefna að tryggingaaskuld Sjóvár lækkaði um 2,7 milljarða króna en eigið fé hækkaði um 2,2 milljarða að teknu tilliti til skattgreiðslu. Hjá VÍS lækkaði tryggingaskuldin um fimm milljarða króna, en eigið fé hækkaði um 3,7 milljarða af sömu ástæðu.

Á móti hækkaði lögboðið eigið fé félaganna, sem öðru nafni nefnist gjaldþol. Gjaldþolið er að hækka meira en sem nemur hækkun eigin fjár vegna reikningsskilabreytinganna.

Lögboðin krafa um eigin fé í rekstri Sjóvár jókst því um 6.263 milljónir króna, um 5.894 milljónir hjá VÍS og um 3.946,5 milljónir króna hjá TM. Þetta eru langtum hærri fjárhæðir en hækkun eiginfjár vegna lækkun tjónaskuldar. Það er því alrangt breytt reiknisskil séu ástæða arðgreiðslna tryggingafélaganna, hvað þá að arðurinn sé greiddur úr hinum svokallaða bótasjóði.“

Óðin spyr jafnframt hvað eigi að gera við þetta fjármagn ef ekki eigi að greiða það hluthöfum í formi arðs.

„Stjórnir tryggingafélaganna hafa lengi verið að berjast við það að bæta tryggingahluta reksturs félaganna. Samsetta hlutfallið hefur verið um eða yfir 100% mjög lengi, sem segir manni reksturinn hefur verið í járnum eða að tap hefur verið á þessum hluta rekstursins. Vissulega hefur staðan verið misgóð, en öll vilja þau bæta þennan hluta rekstursins. Ef sú krafa er sett fram í fúlustu alvöru að eigendur tryggingafélaganna eigi að niðurgreiða taprekstur á þessu sviði þá hefur það ýmsar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir markaðinn.

Við þessar aðstæður verður erfiðara, ef ekki ómögulegt, fyrir nýja aðila að brjóta sér leið inn á slíkan markað, nema þeir hafi á bak við sig fjárfesta sem vilja fyrir alla muni tapa á tryggingarekstri líka. Þeir sem kvarta undan fákeppni ættu að hafa þetta í huga.“

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu í dag, 10. mars 2016. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .