Svo virðist sem stjórnmálamenn telji þeirra greiðustu leið til aukinna vinsæla vera þá að gagnrýna bankana. Þetta segir Monica Caneman, stjórnarformaður Arion banka.

Caneman er spurð út í þær ógnir og tækifæri sem blasi við fjármálageiranum í ársriti Samtaka fjármálafyrirtækja sem kom út í dag. Hún segir helstu tækifærin felast í því að ljúka sem fyrst úrvinnslu mála sem tengist fortíðinni og skuldavanda viðskiptavina þeirra.

Þá segir hún um margt einstaka stöðu ríkja á fjármálamörkuðum. Skuldastaða margra, bæði einstaklinga og fyrirtækja, sé erfið og sé krafa um skuldalækkun ákveðinna hópa.

Þá bendir hún á að ríkið spili hér á landi stórt hlutverk sem eigandi tveggja af stærstu lánveitendum á íbúðamarkaði.

Stjórnarformaðurinn varar hins vegar við þeirri leið stjórnmálamanna að auka vinsældir sínar með gagnrýni á bankana og bendir á að ákveðin áhætta sér fólgin í því að láta ekki skynsemina ráða för í mótun starfsumhverfis mikilvægra stofnana á borð við fjármálastofnana.