Lars Christensen, starfsmaður greiningardeildar Danske Bank, og annar höfundur svörtu skýrslunnar um íslenskt efnahagslíf sagði á fjölmennum hádegisfundi í dag að greiningardeild Danske Bank stæði við allt það sem kemur fram í skýrslunni bankans sem kom út fyrir nokkrum vikum síðan.

Christensen sagði að það hefði komið sér á óvart hversu hörð viðbrögð danska skýrslan fékk hér á landi þar sem spáin sem þar sé sett fram um verulegan hagvaxtarsamdrátt sé á svipuðum nótum og spár sem bæði Seðlabankinn og Glitnir hafa gefið út.

Christensen sagði jafnframt að það væri eðlilegt að samdráttarskeið væri framundan þar sem íslenska hagkerfið hefði vaxið mjög hratt á undanförnum árum og eins og eftir öll góð partý væri nú von á timburmönnum.

Hann sagði að Íslendingar hefðu þann möguleika að taka afleiðingum hins hraða vaxtar núna en ef því yrði frestað þá yrði niðursveiflan harðari enn ella og þynnkan verri og lengri.

Carsten Valgreen, aðalhagfræðingur Danske Bank og skýrsluhöfundur, sagði að þrátt fyrir að vita meira um Ísland og íslenskt hagkerfi nú en áður þá hafi ekkert nýtt komið í ljós sem gæti breytt því sem kæmi fram í skýrslunni.

Valgreen sagði að stundum sjái þeir sem standi utanfrá heildarmyndina skýrar og það ætti við í þessu tilviki.

Valgreen sagði á fundinum vilja koma því á framfæri að skýrslan væri ekki skrifuð af neinum vafasömum ástæðum eða samkeppnislegum tilgangi eins og haldið hefur verið fram heldur hefði Danske Bank fengið svo mikið af fyrirspurnum frá fjárfestum um Ísland að óhjákvæmilegt hafi verið að taka landið til umfjöllunar og vara þá við að horfurnar væru ekki góðar.

Á fundinum, sem haldinn var á vegum Félags viðskipta- og hagfræðinga, tóku einnig til máls Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, og Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, sem röktu í framsögum sínum stöðu íslenska hagkerfisins á allt öðrum nótum en Lars Christensen gerði.

Edda Rós Karlsdóttir sagði að þó vissulega væru til staðar merki um ójafnvægi í hagkerfinu nú þá væri engin ástæða til að ætla að slíkt myndi leiða til fjármálakrísu. Aðstæður hér á landi væru ekki verri heldur en þær voru árið 2001 þegar samdráttarskeið varð hér á landi.

Á fundinum kom það skýrt fram meðal framsögumanna og í pallborðsumræðum eftir fundinn að sú umfjöllun sem hafi átt sér stað undanfarið um íslenskt efnahagslíf sé óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að íslensk fyrirtæki hafa nú hafið sókn á alþjóðlega markaði.

Íslendingar verði því að læra að taka þessari gagnrýni og sætta sig við hana. Dönsku gestirnir sögðu að það væri af og frá að halda því fram að skýrslur af þessu tagi geti orðið ákvæðisskýrslur og styrkt ferlið sem verið er að spá fyrir um. Aðeins væri verið að benda á ferli sem væri þegar byrjað.

Christenssen sagði að ef Danske Bank hefði gefið úr sömu skýrslu fyrir ári síðan þá hefði hún ekki fengið sömu athygli og í dag. Hins vegar hafi þróunin á síðastliðnu ári gert það að verkum að ákveðin samstaða hafi skapast fyrir þeirri skoðun að samdráttarskeið væri óhjákvæmilegt og æskilegt.

Valgreen sagði að það sem hefði breyst nú væri að íslensk fyrirtæki væru í auknum mæli háð því að sækja sér fjármagn á erlenda markaði og væru því orðin mjög viðkvæm fyrir öllum breytingum sem verða að aðgengi og kostnaði við slíkt fjármagn.

Edda Rós sagðist vona að íslenska hagkerfið geti gengið í gegnum samdrátt án þess að til kreppu komi en Arnór Sighvatson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði í pallborðsumræðum að samdráttur væri væntanlegur í íslensku efnahagslífi.

Tryggvi Herbertsson, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskólans, sagði að erfitt væri að segja til um hvort fjármálakreppa væri yfirvofandi en ef svo væri þá muni hún ganga hratt yfir.

Dönsku gestirnir sögðu að lokum að auðvitað gætu þeir ekki fullyrt að fjármálakreppa og samdráttarskeið yrði á Íslandi en hins vegar aukist áhættan á slíku þegar hraðinn er mikill.

"Ísland hefur verið að keyra á 200 kílómetra hraða undanfarin ár og annað hvort komist þið á leiðarenda fyrir heppni eða þið komist alls ekki á leiðarenda" sagði Carsten Valgreen