Að sögn Ragnars Þórissonar, vogunarsjóðsstjóra hjá Boreas Capital, er með ólíkindum að stjórnvöld skuli ekki vera búin að láta framkvæma svokallaðar þrívíddar rannsóknir (3D Seismic) á Drekasvæðinu en þessi nýja tækni gefur mun nákvæmari mynd af magni af olíu og gasi sem þarna er sem og dýpt. ,,Það er einnig alveg með ólíkindum að orkumálaráðherra okkar skuli ekki vera búinn að ráða olíumálaráðgjafa með áratugareynslu af þessum málum inn í ráðuneytið," sagði Ragnar.

Þess má geta að Boreas Capital hefur fjárfest talsvert í olíufélögum og þekkir vel til þess iðnaðar.

Ragnar segir að íslensk stjórnvöld séu að gera stórkostleg mistök þar sem verið er að fara fram á 59% skatt og enga kostarþáttöku íslenska ríkisins. Í Noregi greiðir ríkið 79% af kostnaði við rannsóknir og boranir og tekur svo 79% af hagnaði fyrirtækjanna eftir að þau fara að skila hagnaði.

Hefðum getað fengið mun fleiri fyrirtæki

,,Ísland vill bara háan skatt og enga þátttöku í kostnaði og þetta gæti endað með því að það koma bara 2-3 fyrirtæki fram sem vilja taka þátt í þessari rannsóknarleyfisveitingu í staðinn fyrir 15-25 fyrirtæki eins og fyrst var búist við. Þetta þarf að laga strax í samvinnu við olíuráðgjafa sem við þurfum að ráða strax. Kannski væri best að endurskipuleggja skatttökuna og gera nánari  rannsóknir á okkar kostnað áður en þetta verður boðið út. Eitt er ljóst að Íslendingar munu aldrei ganga í ESB komi það í ljós að þarna sé þessi olía sem talað eru um og það skiptir engu máli hvort við byrjum að vinna olíuna á næsta ári eða eftir 10 ár því það verður alltaf litið á okkur sem olíuríki og það myndi styrkja okkur stöðu gríðarlega," sagði Ragnar.

Ragnar benti á að haldið hefur verið fram að það séu 10 milljarðar tunna af olíu á Drekasvæðinu. Sé það rétt þá verður Ísland þriðja stærsta olíuríki heims á eftir Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmunum með 30.000 tunnur á íbúa. Þess má geta að Noregur er með 2850 tunnur per íbúa þannig að við erum að tala um gríðarleg auðæfi.