Fyrrum forsvarsmenn og eigendur mjólkurbúanna Mjólku, og Kú, segja niðurstöðu Landsréttar um að MS hafi brotið gegn samkeppnislögum mikilvæga því þeir hafi orðið fyrir barðinu á alvarlegum og langvarandi brotum Mjólkursamsölunnar sf á samkeppnislögum eða allt frá árinu 2005.

Ólafur M. Magnússon, sem stofnaði bæði félögin, segir alvarlegt mál að forstjóri MS hafi talið sig vita niðurstöðu áfrýjunarnefndar um málið viku fyrr og segir nefndarmann sem hafi unnið fyrir Bændasamtökin hafa verið vanhæfann.

Þá gagnrýnir hann að standi til að afnema heimild til áfrýjunar úrskurðum nefndarinnar, málið hefði aldrei haldið áfram ef hún væri ekki til staðar. Loks skorar hann á stjórnvöld að afnema allar undanþágur MS frá samkeppnislögum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá gær staðfesti Landsréttur 480 milljóna króna sekt á Mjólkursamsöluna, en áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur komist að sömu niðurstöðu, eftir áfrýjun Samkeppniseftirlitsins á synjun úrskurðarnefndar áfrýjunarmála.

Ólafur, segir í yfirlýsingu að ákvörðun Landsréttar nú taka af öll tvímælu um að valdheimildir SKE til að áfrýja málum til dómstóla séu algerlega nauðsynleg.

Stóralvarlegt að afnema áfrýjunarheimild SKE

Í samtali við mbl.is vegna málsins segir Ólafur það stóralvarlegt mál að stjórnvöld hyggist afnema heimild stofnunarinnar til að áfrýja úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar, en það er meðal breytinga í nýju frumvarpi um stofnunina sem hefur verið kynnt.

Áfram verður þó fyrirtækjum heimilað að áfrýja ákvörðuninni, en Ólafur segir að ef þetta frumvarp hefði verið orðið að lögum hefði málið aldrei ratað fyrir dómstólum og sýkna nefndarinnar yfir MS staðið.

„Það er gríðarlega mikilvægt að menn geti borið ágreiningsefni sín undir óvilhallan dóm. Menn hljóta að hugsa sig tvisvar um áður en þeir fara að krukka í valdheimildum Samkeppniseftirlitsins,“ segir Ólafur sem segir að þó MS sé lykilfyrirtæki fyrir íslenska bændur vilji hann geta keppt við það á jafnréttisgrundvelli.

Áfram segir í yfirlýsingunni:

„Að baki eru fimmtán erfið ár sem hafa kostað fyrirtæki okkar mikið, fjölskyldur, lánadrottna og síðast en ekki síst íslenska neytendur.

Brot Mjólkursamsölunnar hafa haft alvarlegar afleiðingar á fyrirtæki okkar með óafturkræfum skaða og því fögnum við þessari niðurstöðu. Ákvörðunin tekur af öll tvímæli að valdheimildir Samkeppniseftirlitsins og réttarúrræði svo sem áfrýjun til dómsstóla er algjörlega nauðsynleg. Ekki síst þegar fulltrúar í áfrýjunarnefnd eru algjörlega vanhæfir líkt og Stefán Már Stefánsson var í þessu máli, sem hefur um árabil unnið fyrir Bændasamtök Íslands og haft af því verulega fjárhagsleg ávinning persónulega. Mjólkursamsalan (MS) er samvinnufélag í eigu mjólkurbænda sem eru viðskiptamenn hans í gegnum Bændasamtök Íslands og hann hefur verið í hagsmunagæslu fyrir og fengið tugi milljóna greitt fyrir.

Alvarlegast er þó að forstjóri MS taldi sig vita að niðurstaða áfrýjunefndar yrði honum hagfeld á sínum tíma þ.e. MS, viku áður en úrskurður áfrýjunarnefndar var birtur opinberlega. Í öllum lýðræðisríkjum sem við helst berum okkur saman við hefði það kallað á opinbera rannsókn. Við höfum ávallt geta treyst íslenskum dómsstólum og borið traust til þeirra þó því sé ekki eins farið í áfrýjunarnefnd, landbúnaðarráðuneytinu og stjórnsýslunni almennt. Brot MS er sérstaklega gróft þar sem MS er eina fyrirtækið í hinum vestræna heimi sem er með verulegar undanþágur frá samkeppnislögum og gríðarlega sterka markaðstöðu. Þrátt fyrir verulega undanþágur brýtur MS gróflega gegn samkeppnislögum og hefur ekkert fyrirtæki orðið uppvíst að jafn alvarlegum brotum og felast í brotum gegn 19.gr samkeppnislaga, ekki síst þar sem þau eru ítrekuð og langvarandi.

Niðurstaða Landsréttar sem staðfestir nú áðurfengna niðurstöðu Héraðsdóms er því graf alvarlegur áfellisdómur yfir störfum forstjóra og stjórnar MS sem hafa í störfum sínum brotið illa á keppinautum sínum á markaði. Aðgerðir MS hafa valdið fyrirtækjum okkar fjárhagslegum skaða og hafa síðast en ekki síst bitnað á hagsmunum neytenda með alvarlegum hætti. Stjórnvöld hljóta að kalla forsvarsmenn mjólkuriðnaðarins til ábyrgðar þar sem þeim hefur verið falið mikið vald sem þeir hafa ítrekað misnotað og brotið það traust sem þeim hefur verið sýnt gagnvart íslenskum neytendum og hagsmunum þeirra. Sérstaklega er þetta alvarlegt í ljósi þeirra gríðarlegu innflutningsverndar sem MS hefur verið tryggð í áratugi.

Við skorum því á stjórnvöld að fella strax úr gildi allar undanþágur MS og tengdra aðila frá samkeppnislögum og kalla forsvarsmenn mjólkuriðnaðarins fyrir og krefjast skýringa, aðgerða til úrbóta og leiðréttingar strax og stöðva þessa framgöngu."