Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins hefur litla trú á aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að leysa húsnæðisvandann en sáttmáli þess efnis var kynntur í síðustu viku. Í samtali Mbl við fyrrverandi forsætisráðherra segir hann að aðgerðirnar muni ekki koma til með að leysa þann vanda sem ungt og efnaminna fólk stendur frammi fyrir. Húsnæðið sem í aðgerðirnar bjóða upp á sé dýrt auk þess sem aðgerðirnar nái langt fram í tímann.

Segir Sigurður að hljóð og mynd fari ekki saman í aðgerðunum og bendir á stjórnvöld segjast vilja auka stuðning við fyrstu kaupendur en það stangist á við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem dregið verður úr húsnæðisstuðningi.

Sigurður segir einnig að það sé skortur á framboði á ódýrara húsnæði og ástæðan sé meðal annars sú að verið er að byggja á þéttingarreitum. Segir hann hugmyndirnar í sáttmálanum snúa meira og minna að því að byggja á þeim reitum og að annað hvort eigi að selja landið á markaðsverði sem sé býsna hátt eða gera ábatasamning eins og gert var við Garðabæ um Vífilsstaðalandið þar sem landið fer til hæstbjóðanda. „Ég get ekki séð að þetta muni lækka verðið til ungs fólks. Allar þessar lóðir eru dýrar og það fer beint inn í byggingarverðið“.