Valborg Kjartansdóttir vörumerkjasérfræðingur ritar grein í Viðskiptablaðið í dag þar sem hún bendir á andvaraleysi forráðamanna RÚV gagnvart tilraunum Íslenska útvarpsfélagsins til að eigna sér vörumerkið GUFAN. "Tilefni greinarinnar er að ég var hugsi þegar að merkið var auglýst en ég átti þá von á því að útvarpið myndi leggja inn andmæli og lagarök innan ákveðins frests. Ég skráði hjá mér andmælafrestinn sem er síðast dagur 15.4.2005 og athugaði síðan í gær því hvort ekki hafi verið lögð inn andmæli. Það hafði ekki verið gert og ef að það verður ekki gert á föstudag (í dag) tel ég að menn gæti ekki nægilega vel að verðmætum stofnunarinnar og hennar auðkennum," segir Valborg.

"Ég skil m.ö.o. ekki hvers vegna ekki er reynt að stöðva þessa sjálftöku. Ef einhver á að gera það er það Ríkisútvarpið f.h. Rásar 1," sagði Valborg sem er lögmaður í Reykjavík en hún starfar einkum á sviði vörumerkjaréttar og rekur lögmannsstofuna Sigurjónsson & Thor ehf.

Að sögn Valborgar er einfaldasta leiðin að andmæla í dag en ef það er ekki gert getur RÚV farið í mál seinna með tilheyrandi kostnaði.