Arnar Þór Gíslason sem á og rekur fjölda skemmti- og veitingastaða í miðbænum er afar ósáttur með viljaleysi fasteignafélaganna Eikar og Reita til að lækka húsaleigu fyrirtækja á borð við hans, sem hafa orðið fyrir nánast algjöru tekjufalli sökum kórónufaraldursins.

Í samtali við RÚV segir Arnar suma minni húseigendur hafa komið til móts við sig og aðra í svipaðri stöðu með allt að helmingslækkun leigugreiðslna, á meðan stóru félögin haggist ekki, og fari fram á dýrar skýrslur til að íhuga beiðnina.

Hann lýsir stöðu fyrirtækisins þannig að það hafi verið í öndunarvél, en sé nú komið í líknandi meðferð. Afar íþyngjandi sé að greiða 25% laun 200 starfsmanna ofan á fullar leigugreiðslur á meðan tekjur séu litlar sem engar.