Bjarni Ákason framkvæmdastjóri og aðaleigandi Bako Ísberg, sem selur búnað og rekstrarvörur til stóeldhúsa , hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig bregðast hefði við áhrifum kórónuveirufaraldursins á veitingahúsarekstur, og gagnrýnir að fasteignafélögin veiti þeim einungis greiðslufrest.

Bjarni hefur jafnframt ákveðnar skoðanir á rekstri en hann stóð lengi í því að reka Apple umboðið hér á landi , og þar áður á Norðurlöndum þar sem hann þurfti að koma aftur að rekstrinum eftir að hafa selt sig út.

Þó að Bjarni telji fyrstu efnahagsaðgerðir stjórnvalda á margan hátt hafa verið góðar, sjái hann ekki að nóg sé gert fyrir fyrirtækin í landinu í pakka tvö til að fleyta þeim yfir erfiðasta hjallann meðan áhrifin af útbreiðslu kórónuveirunnar eru hvað mest. Bendir hann til að mynda á að flest stóru fasteignafélögin sem eru einmitt leigusalar flestra veitingahúsanna ætli einungis að fresta leigugreiðslum.

„Maður hefði viljað sjá þessi fasteignafélög, og sérstaklega bæjarfélögin spila betur með. Það hefði hreinlega átt að setja neyðarlög á leigufélögin og sérstaklega fasteignaskatta sveitarfélaganna, sem jú ætla að lækka eitthvað pínulítið á næsta ári, en þá er það orðið of seint,“ segir Bjarni.

„Við erum hins vegar ekki skuldsett félag og eigum svolítið borð fyrir báru með afskriftarsjóðum. Mitt hlutverk verður bara að þróa félagið næstu árin og koma fleiri fótum undir reksturinn, en ætli ég verði ekki að seinka yfirlýstum markmiðum mínum um að koma veltunni yfir milljarðinn á þessu ári. Ég myndi segja að eftir svona 2022 þá næ ég því markmiði."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .