Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri Alvogen, segir í yfirlýsingu að fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins hafi ekki áttað sig á því hvað meiðyrðamál Róberts Wessman, forstjóra Alvogen, gegn Bjarna Ólafssyni, ritstjóra Viðskiptablaðsins, hafi snúist um. Er þar um að ræða pistil eftir Andrés Magnússon , sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag. Segir Halldór að dómur Hæstaréttar, þar sem Bjarni var sýknaður, staðfesti að Róbert njóti ekki réttarverndar.

Yfirlýsing Halldórs í heild sinni:

„Rangfærslur Andrésar Magnússonar

Andrés Magnússon, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, lætur móðann mása í grein í Viðskiptablaðinu í dag undir dálknum Fjölmiðlarýni. Tilefni greinarinnar er nýlegur hæstaréttardómur þar sem blaðið var sýknað af meiðyrðum í garð Róberts Wessman.

Viðskiptablaðið var sýknað þrátt fyrir að ekki væri deilt um að fyrirsögn blaðsins væri röng. Það hefur ekki verið deilt um ranga fullyrðingu í fyrirsögn enda fjarlægði blaðið hana um leið og þeir áttuðu sig á því.

Dómur Hæstaréttar staðfestir hins vegar að Róbert nýtur ekki réttarverndar vegna þessa af þeirri einföldu ástæðu að lagt er að jöfnu hvort einhver (lesist Björgólfur Thor Björgólfsson) sakar Róbert um fjárdrátt úr félagi sem þeir eiga tveir saman annars vegar, eða hvort hann sé sakaður um fjárdrátt úr almenningshlutafélagi sem skráð var í Kauphöll Íslands. Róbert var forstjóri Actavis á þessum tíma.

Róbert er þeirrar skoðunar að slík ásökun sé allt önnur og verri en einhverjar skærur milli hans og Björgólfs Thors vegna félags sem þeir áttu saman en sú deila er í ágætum farvegi fyrir dómstólum. Ef Róbert hefði verið ásakaður um að draga að sér fé frá Actavis (sem enginn hefur raunar gert) væri um að ræða ásökun um fjárdrátt forstjóra frá þeim þúsundum hluthafa sem áttu fjárhagslega hagsmuni í fyrirtækinu og forstjórinn er meðal annars ráðinn til að gæta. Andrés virðist því miður ekki skilja þennan mun og virðist í raun ekki átta sig á því hvað málið snýst um því hann skrifar svo í grein sinni: „Ummæli snerust um að Róbert hefði verið sakaður um að hafa dregið sér fé frá Actavis Group hf.„“ og að þetta hefði verið byggt á stefnu Björgólfs Thors. Tilefnislaus stefna Björgólfs Thors hefur aldrei snúist um fjárdrátt frá Actavis og ef Viðskiptablaðið væri spurt að því hvort Björgólfur Thor ásaki Róbert um fjárdrátt frá fyrirtækinu í stefnunni myndi blaðið væntanlega svara því neitandi enda tók blaðið út þá fyrirsögn sína. Gott er að halda því til haga að stefnu Björgólfs Thors á hendur Róberti Wessman fyrir fjárdrátt var snarlega vísað frá embætti Sérstaks saksóknara enda engin fótur fyrir slíkri kæru.

Róbert ákvað, Andrési til vanþóknunar, að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort hann nyti réttarverndar gegn slíkri rangfærslu og fékk skýran dóm um það frá Hæstarétti að svo væri ekki, þar sem Björgólfur hefði sakað hann um fjárdrátt í stefnu sinni og Róbert yrði að þola umfjöllun um sig og sín fjármál í fjölmiðlum. Það er svo hvers og eins að meta hvort það sé eðlilegt að þeir sem fjallað er um njóti réttarverndar gegn rangfærslum af þessu tagi. Róbert gerir það ekki – að minnsta kosti ekki í þessu tilviki.

Halldór Kristmannsson.“

Athugasemd ritstjóra: Í málinu var deilt um setninguna „Sakar Róbert um að hafa dregið sér fé frá Actavis“, sem birtist á forsíðu Viðskiptablaðsins þann 28. ágúst 2014. Í rökstuðningi Hæstaréttar segir: „...fólst í hinum umstefndu ummælum í fyrirsögn blaðsins staðhæfing um staðreynd sem var efnislega rétt.  Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.“