Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, gagnrýnir fréttaflutning RÚV um skipan nefnda Alþingis og umræðunnar um skort á samráði um þau mál, á facebook.

Hann segir stjórnarflokkana hafa lagt upp með það í samtali við stjórnarandstöðuna að stjórnarflokkarnir færu með meirihluta í nefndum. Aftur á móti myndu tveimur nefndum vera stýrt af stjórnarandstöðunni.

Samkvæmt færslu Bjarna, gaf stjórnarandstaðan frá sér formennsku í þremur nefndum, einfaldlega vegna þess að hún náði ekki að koma sér saman um hvað ætti að falla í hlut hvers.

Statusinn í heild sinni má lesa hér:

Vegna frétta af skipan nefnda Alþingis og umræðunnar um skort á samráði um þau mál er rétt að taka eftirfarandi fram: Stjórnarflokkarnir lögðu upp með það í samtali við stjórnarandstöðuna að líkt og gilti á síðasta kjörtímabili væri gengið út frá því að stjórnarflokkar færu með meirihluta í nefndum en tveimur nefndum yrði stýrt af stjórnarandstöðu. Gengið var út frá því að það yrðu sömu nefndir og stjórnarandstaðan stýrði á síðasta kjörtímabili, þ.e. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd annars vegar og velferðarnefnd hins vegar.

Þegar fundir um þessi mál áttu sér stað í aðdraganda þingsetningar kom fram sá eindregni vilji stjórnarandstöðu að ná samkomulagi um þriðju nefndina og eins var óskað eftir því að samið yrði um fyrstu varaformennsku í nefndum. Það skal tekið fram að fyrir lá í þessum samtölum að nefndunum tveimur yrði stýrt af Vinstri-grænum og Pírötum (tveir stærstu flokkarnir í stjórnarandstöðu). Kæmi til þess að samið yrði um þriðju formennskuna þá yrði það til að tryggja að Framsókarflokkurinn færi fyrir einni nefnd (þriðji stærsti flokkurinn).

Þessi samtöl þróuðust með þeim hætti að Framsóknarflokkurinn sóttist eftir formennsku í efnahags- og viðskiptanefnd. Af hálfu stjórnarflokkanna var það samþykkt.

Með þessu höfðu stjórnarflokkarnir fallist á að fela stjórnarandstöðu forystu í fleiri nefndum en dæmi eru um.

Þessu er hins vegar öllu snúið á haus á þann veg að þar sem samkomulagið hafi snúist um að fallast á bón Framsóknarflokksins um forystu í efnahags- og viðskiptanefnd þá hafi stjórnarflokkarnir viljað hafa áhrif á val stjórnarandstöðunnar. Því er slegið upp sem staðreynd í fyrirsögn fréttar á RÚV.

Það væri nær að skrifa frétt um að stjórnarandstaðan hafi gefið frá sér formennsku í þremur nefndum því hún gat ekki komið sér saman um hvað ætti að falla í hvers hlut. Getur verið að Píratar hafi ekki getað unnt Framsóknarflokknum þess að leiða mikilvæga nefnd og hafi frekar viljað kasta öllu frá sér til að koma þeirri sögu á kreik að stjórnin hafi ekkert boðið?