Sigríður Á. Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, talaði í gær gegn frumvarpi forsætisráðherra um breytingu á lögum um Hagstofu Íslands.

Frumvarp forsætisráðherra felur í stuttu máli í sér að Hagstofunni verði gert heimilt að afla gagna um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja með það að markamiði að búa til opinbera hagskýrslu. Frumvarpið er samið af Hagstofunni og forsætisráðuneytinu.

Í athugasemd með frumvarpinu kemur fram að frumvarpið feli það í sér að tekin verði af öll „tvímæli um að Hagstofunni sé heimilt í þágu hagskýrslugerðar að óska eftir upplýsingum af fjárhagslegum toga frá fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri um viðskipti þeirra við þriðja aðila.“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og staðgenginn forsætisráðherra, kynnti frumvarpið á Alþingi í gær í fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra. Sigríður, sem nú situr á þingi í fjarveru Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, tók til máls í umræðu um frumvarpið og lýstir yfir miklum efasemdum um innihald þess.

Sigríður sagði að gengið væri mjög langt í því að afnema persónulegan trúnað viðskiptavina fjármálafyrirtækja með fyrrnefndu frumvarpi. Þá sagði Sigríður að tilgangur frumvarpsins væri ekki skýr og það gæti varla verið tilgangurinn einn að afla upplýsinga um fjármál einstaklinga af hálfu ríkisins.

Frumvarpið gerir ráð fyrir auknum heimildum Hagstofunnar til að nálgast persónuupplýsingar. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að þær upplýsingar af fjárhagslegum toga sem frumvarpið tekur til séu ekki jafnviðkvæmar og heilsufarsupplýsingar sem ríkið hefur áður aflað sér með gagnagrunni á heilbrigðissviði. Þessu mótmælti Sigríður og sagði að fjárhagsupplýsingar einstaklinga væru persónuupplýsingar sem væru varðar með lögum sem væri einstaklingunum sjálfum til handa.

„Bankaleyndin er ekki fyrir fjármálastofnanirnar, bankaleyndin er sett til handa einstaklingum og viðskiptavinum fjármálafyrirtækja,“ sagði Sigríður og bætti því við að dómaframkvæmd hefði þó aflétt þeim trúnaði í sértökum tilgangi, þ.e. til að sinna eftirliti. Sigríður sagði það þó ekki eiga við í fyrrnefndu frumvarpi.

Þá rifjaði Sigríður upp að árið 2009 hefðu fjármálastofnanir veitt Seðlabanka Íslands dulkóðaðar upplýsingar um skuldastöðu heimila og fyrirtækja með sérstökum hætti að ósk Seðlabankans og þáverandi stjórnvalda. Hún sagði þó að Seðlabankinn hefði eytt upplýsingum þegar búið var að vinna upp úr þeim og tilgangurinn þá hafi verið að meta ástandið eins og það var þá. Þannig sagði Sigríður að mögulega væri til vægari leið til að afla fyrrnefndra upplýsinga og hægt væri að nálgast þær með meðalhóf að leiðarljósi. Hún sagði frumvarpið ekki fela í sér að um væri að ræða dulkóðaðar upplýsingar.

Bjarni tók til máls í lok umræðunnar og vísaði óbeint til ræðu Sigríðar. Hann sagði að umræða um vernd persónuupplýsinga væru gild sjónarmið og skoða þyrfti þann þátt betur. Hann mælti í lok umræðunnar fyrir því að frumvarpið færi til allsherjar- og menntamálanefndar í ljósi þeirrar  umræðu sem skapast hefði um meðferð persónuupplýsinga. Það var samþykkt af meirihluta viðstaddra þingmanna.

Hér er hægt að sjá umræðuna frá því í gær á vef Alþingis.