Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, gagnrýndi harðlega ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sem skerða tekjur ríkissjóðs. Hún sagði, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, að ýmsar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar yrðu til þess að tekjur væru skertar um 20 milljarða á ársgrundvelli til framtíðar. Á sama tíma væri enn verið að skera niður í samneyslunni.

„Þetta er dæmi um val stjórnmálamanna sem hefur afleiðingar á líf Íslendinga allra – og kannski er besta dæmið um val nýi gistinóttaskatturinn sem öfugt við þann gamla á ekki að leggjast á heilbrigða erlenda ferðamenn heldur fárveikt fólk sem hefur ekkert val heldur neyðist til að leggjast inn á spítala og eyða þar nótt. Talsmenn ríkisstjórnarinnar segja að gjaldið sé ekki hátt. Það er vissulega ekki hátt fyrir suma og skilar raunar óverulegum tekjum til ríkissjóðs en þetta snýst um grundvallaratriði – hvort heilbrigðiskerfið sé fyrir alla óháð stöðu þeirra,“ sagði Katrín.

Þá benti Katrín á að fjárlög næsta árs væru ekki hallalaus heldur væri 10 milljarða króna halli falinn með því að færa 10 milljarða úr vasa Seðlabankans yfir í vasa ríkissjóðs. Sá vasi væri á sömu buxum. „Og auðlegðarskatturinn sem skilar tæpum tíu milljörðum í ár á að falla niður árið 2015 og mun því skilja eftir 10 milljarða gat á þeim fjárlögum sem ekki liggur fyrir hvernig á að loka,“ sagði Katrín.