Ríkisútvarpið hefur enn úr umtalsverðum fjármunum að spila, segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Sérstök umræða um starfsmannamál RÚV fór fram á Alþingi í dag.

Málshefjandi var Steingrímur J. Sigfússon. Hann gagnrýndi meðal annars hvernig staðið hefði verið að uppsögnum 39 starfsmanna í síðustu viku og að niðurskurðurinn bitni helst á Rás 1. Sagði Steingrímur að stjórn RÚV og stjórnarformaður hlyti að bera ábyrgð á uppsögnunum. Spurði hann hvort stjórnarformaðurinn  og stjórnin nyti stuðnings ráðherra í þessum aðgerðum.

Illugi sagði að í tíð síðustu ríkisstjórnar hefði rekstrarframlag til RÚV lækkað um næstum milljarð. Því hefði verið þrengt að stöðu Ríkisútvarpsins með lækkun af framlögum ríkisins. Einnig hafi verið þrengt að stöðu Ríkisútvarpsins með opinberum framlögum.

Illugi sagði að ríkissjóður væri í þröngri stöðu, en samt væri umtalsverðum fjármunum varið til Ríkisútvarpsins þannig að það stæði undir mikilvægri starfsemi. Það þyrfti aftur á móti að ákveða hvernig hlutverk RÚV væri vel skilgreint og hvernig því væri best sinnt. Illugi sagðist bera fullt traust til stjórnarformanns Ríkisútvarpsins.

Katrín Jakobsdóttir gagnrýndi málflutning Illuga og sagði að á verðlagi ársins 2013 hefði framlag til RÚV ekki verið skorið niður um milljarð heldur rúmar 400 milljónir.