Hannes Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Helgafellsbygginga, gagnrýnir harðlega í Viðskiptablaðinu í dag tafir og seinagang sem félagið hefur orðið að þola vegna framkvæmda við nýtt íbúðahverfi undir hlíðum Helgafells. Að sögn Hannesar er unnt að tefja framgang verkefna með endalausum kærum.

"Réttur fólks til að hafa áhrif á umhverfi sitt og skipulag er mjög mikilvægur og ég vil alls ekki gera lítið úr honum. Það sem ég vil hins vegar gagnrýna er að kerfið er þannig upp sett að auðvelt er fyrir fólk að misnota þennan rétt og beita einhverju sem kalla mætti skipulagslegt málþóf. Til dæmis má nefna að hægt er að senda inn ótalmargar samhljóða athugasemdir við einhvern framkvæmdaþátt til að tefja fyrir, því yfirvöldin eru skyldug til að taka hverja og eina athugasemd til formlegrar afgreiðslu, jafnvel þótt hún hafi komið fram áður, stundum oft áður. Það þarf að breyta kerfinu svo fámennur hópur með sérhagsmuni geti ekki tekið verkefni í gíslingu með tæknilegum bolabrögðum, en tryggja um leið réttindi íbúa og eðlilegt samráð. Því miður höfum við orðið fórnarlömb vinnubragða af þessu tagi. Það finnst mér vera misbeiting á lýðræðislegu leikreglunum í skipulagsmálum," segir Hannes í viðtali við Viðskiptablaði.

Sjá ítarlegt viðtal við Hannes í Viðskiptablaðinu í dag.