Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, kallar eftir því að stjórnvöld endurskoði „ógagnsæjar“ reiknireglur á þorskígildum og telur að hún muni að óbreyttu veikja samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á erlendum mörkuðum. Einnig gagnrýnir hann „mjög þrönga“ túlkun Samkeppniseftirlitsins á samkeppnislögum sem gilda um sjávarútveginn. Þetta kemur fram í ávarpi hans í ársskýrslu Brims.

„Helstu keppinautar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja stækka sífellt og eflast á meðan vexti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er skorinn þröngur stakkur,“ skrifar Guðmundur. Hann bendir jafnframt á að Ísland sé í 17. sæti yfir aflahæstu þjóðir heims en á sama tíma komist ekkert íslensk fyrirtæki nálægt hundrað stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum í heimi.

Að hans mati skýrist það m.a. af því að hvert sjávarútvegsfyrirtæki geti aðeins haft 12% af heildar þorskígildum sem eru á Íslandsmiðum. Í ársuppgjöri Brims kom fram að félagið þurfti að selja frá sér aflaheimildir á síðasta ári þar sem heildar þorskígildi fóru yfir 12% hámark í kjölfar óvenjumikillar úthlutunar á veiðiheimildum á loðnu, ásamt því að þorskígildisstuðull loðnu fór úr 0,00 í 0,36.

Guðmundur segir einnig að Samkeppniseftirlitið miði við mjög strönga skilgreiningu og túlkun um hvernig samkeppnislögin gilda um íslenskan sjávarútveg.

„Þegar íslenski samkeppnismarkaðurinn er skoðaður og hvernig Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna fyrirtækja þar þá eru fyrirtæki oft og iðulega með vel yfir 30 til 40% markaðshlutdeild en í sjávarútvegi er hámarkið 12%. Þetta þak mun hefta framþróun og nýsköpun í sjávarútvegi og veikja samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á erlendum mörkuðum.“

Guðmundur segir að einn helsti tilgangur samkeppnislega sé að tryggja rétt neytenda á sínum heimamarkaði. Hann telur að þegar kemur að sjávarútveginum verði að horfa til þess að nær öll framleiðsla íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sé  seld á erlenda alþjóðamarkaði.

„Eins og að framan greinir gilda mjög ströng lög um hámarks hlutdeild hvers sjávarútvegsfyrirtækis á veiðiheimildum. En síðan koma samkeppnislög í túlkun Samkeppniseftirlitsins á Íslandi að auki í veg fyrir samstarf og samruna fyrirtækja í sjávarútvegi sem leyfist í samkeppnislöndum okkar innan EES og ESB. Þetta gerist þrátt fyrir að lög frá Alþingi um stjórn fiskveiða tryggi dreifingu á aflamarki og þar með samkeppni um veiðiheimildir langt umfram það sem gerist í öðrum greinum og í öðrum löndum.“

Ósamræmi á milli útgerða og fiskeldis

Guðmundur segir að útgerðir fiskveiðiskipa búi við ólík skilyrði en sú vaxandi stoð í framleiðslu sjávarafurða sem fiskeldið sé. Hann nefnir að fiskeldisfyrirtækja með sjóeldisleyfi á Íslandi séu fá og að framleiðslugeta í fiskeldinu hafi margfaldast frá árinu 2015.

„Löggjafinn hefur ekki sett stærðartakmarkanir á þessi fyrirtæki líkt og á útgerðir og þá er ekki bann við fjárfestingu erlendra aðila í fiskeldi líkt og í útgerð.“

Hið opinbera geti dregið úr tortryggni sjávarútvegsins

Ekki er hægt að horfa fram hjá vantrausti og tortryggni sem sjávarútvegurinn mætir að sögn Guðmundar. Hann segir að Brim hafi lagt lóð sín á vogarskálarnar til að skapa traust á atvinnugreininni, m.a. með ítarlegu og reglulegu uppgjöri á öllum þáttum í starfi félagsins.

Hins vegar gæti Alþingi og opinberar stofnanir sem koma að sjávarútvegi lagt sitt að mörkum til að draga úr tortryggni og auka traust á greininni í heild sinni. Guðmundur nefnir í þessu ljósi að æskilegt væri að fá einfaldara og skýrara regluverk, leiðbeiningar og auðveldara aðgengi að upplýsingum.

„Í sjávarútvegi er nóg til að deila um þó ekki sé deilt um staðreyndir. Þær verða alltaf að vera upp á borðum. Aukið gagnsæi og bættur aðgangur að upplýsingum ásamt einföldu og skýru regluverki er að mínum dómi lykillinn að því að við sem samfélag getum rætt og komist að samkomulagi varðandi skipan sjávarútvegs á hverjum tíma.

Við þurfum að ná samkomulagi um skipulag sem tryggir þjóðinni um ókomna tíð sterkan og sjálfbæran sjávarútveg og sterka stöðu á alþjóðamarkaði um sjávarafurðir þar sem okkar afkoma ræðst í lokin. Það er til lítils að veiða og vinna fisk ef ekki finnast neytendur úti í hinum stóra heimi sem vilja kaupa og borða okkar góða fisk,“ segir Guðmundur að lokum.