*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 14. apríl 2020 10:43

Gagnrýnir uppgjör á grunni gangvirðis

Úrsögn úr endurskoðunarnefnd vegna reikninga Félagsbústaða. Borgarfulltrúi segir tilganginn að búa til rými til lántöku með froðu.

Ritstjórn
Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins gagnrýnir einnig uppgjörsaðferð Félagsbústaða líkt og umframkostnað við endurbyggingu Braggans í Nauthólfsvík, en veitingarekstur í húsinu hefur lagst af síðan Viðskiptablaðið tók við hana viðtal í Bragganum.
Haraldur Guðjónsson

Endurskoðandinn Einar Sveinn Hálfdánarson hefur sagt sig úr endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar vegna þeirra reikningsskilaaðferða sem notaðir eru hjá Félagsbústöðum Reykjavíkur og hann hefur gagnrýnt að standist ekki skoðun að því er Fréttablaðið segir frá. Ástæðan sé sú að þar séu matsbreytingar á fasteignum félagsins, ólíkt í öðrum óhagnaðardrifnum félögum í EES ríkjum séu teknar inn í hagnað félagsins.

Gagnrýnir hann jafnframt að skýrslu nefndarinnar um Braggann í Nauthólfsvík hafi verið stungið undir stól, en borgarfulltrúi sem fór mikið í gagnrýni á umfram kostnað vegna framkvæmda við hann segir tilganginn við uppgjörsaðferð Félagsbústaða að búa til rými til lántöku hjá borginni með því að hafa „froðu“ hækkunar á fasteignaverði inn í uppgjörinu og þar með samstöðuuppgjöri borgarinnar.

Milljarða afkoma en samt þurfti að hækka leigu

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um síðustu ár skila Félagsbústaðir reglulega af sér oft á tíðum miklum bóklegum hagnaði vegna þess að fasteignir félagsins eru gerðar upp á gangvirði og taka því inn árlega matshækkun fasteigna sinna í rekstrarhagnað.

Í afkomu síðasta árs skilaði félagið til að mynda 4,5 milljarða króna afgangi, sem var nærri tvöföldun frá árinu áður, en þar af námu matsbreytingar fjárfestingareigna 4,8 milljörðum svo nærri 300 milljóna króna tap var af rekstrinum áður en þær voru teknar inn.

Sem dæmi má nefna uppgjör félagsins sem birt var árið 2017, þegar fasteignamat þjóðskrár sýndi 7,2% hækkun á vísitölu íbúðaverðs yfir reikningsárið, þá var rekstrarafkoman fyrir matsbreytingar og verðlagsbreytingar lána 289 milljónir, en nærri 7,7 milljarðar eftir að þær höfðu verið teknar inn í lokaniðurstöðuna.

Sama ár var sagt frá því að afkoma Reykjavíkurborgar hefði verið jákvæð um 18,6 milljarða króna, eða tæplega 11 milljörðum meira en ráð hafði verið fyrir gert, sem mikið til megi skýra vegna verðhækkana á eignum Félagsbústaða. Í fréttum Viðskiptablaðsins sama ár kom þó fram að leiguverð Félagsbústaða yrði hækkað um 5% umfram verðlagsbreytingar því reksturinn stóð ekki undir afborgunum lána árið áður.

Kapítalískt verkfæri að sósíalísku markmiði

Í viðtali við Auðun Frey Ingvarsson, þáverandi framkvæmdastjóra Félagsbústaða, sagði hann fyrirtækið beita kapítalískum verkfærum til að ná fram sósíalískum markmiðum, en félagið rekur félagslegar íbúðir fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Þess má geta að þessar íbúðir eru utan við þær sem óhagnaðardrifin leigufélög hafa verið að byggja á undanförnum árum á grundvelli laga um svokallaðar almennar leiguíbúðir, sem þrátt fyrir nafnið eru ætlaðar tekjulægra fólki.

Auðunn Freyr hætti svo störfum í lok árs 2018 vegna 330 milljóna umframkostnaðar við viðhald á húsnæði félagsins í Írabakka. Þá hafði hann hækkað um 10% í launum í tæplega 1,5 milljónir árið áður. Í lok síðasta árs gaf félagið út fyrsta félagslega skuldabréfið og þá var sagt að það ætti hátt í 2.700 íbúðir í borginni.

Kærði kvöð um að nota IFRS

Einar Sveinn sagði frá því í lok mars að ekki væri rétt að félag sem ekki er rekið í hagnaðarskyni eins og Félagsbústaðir, noti IFRS staðla, það sé ekki gert í öðrum EES löndum. Þó sagði Viðskiptablaðið frá því að félaginu hafi verið gert að endurgera ársreikninga 2011 og 2012 af ársreikningaskrá Ríkisskattstjóra því félaginu væri skylt að beita IFRS, sem félagið hafði þá kært.

Vísaði hann í minnisblað allt frá árinu 2012 frá KPMG með gagnrýni á þetta, og segir hann hættu á að bæði nefndarmenn og borgarfulltrúar þurfi að sæta persónulegum ábyrgðum því ekki væri hægt að segja endurskoðunaraðferðina gefa glögga mynd af rekstrinum.

Meirihluti Samfylkingar, VG, Pírata og Viðreisnar segir óháðan aðila hafa staðfest núverandi framkvæmd borgarinnar, sem og meirihluti endurskoðunarnefndarinnar en hann segir samstarf í nefndinni hafa verið ágætum fram að þessu.

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins sem situr í minnihluta segir að um óeðlilegt misræmi sé að ræða á uppgjörsreglum A hluta Reykjavíkurborgar og svo Félagsbústaða sem koma inn í B hlutann. Segir hún tilganginn að búa til rými til frekari lántöku borgarinnar með því að hafa þessa froðu inn í uppgjörinu.

„Ekki verður hjá því komist lengur að fá úrskurð reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga og Ríkisendurskoðunar á þessum uppgjörs­kúnstum, sem skipta svo miklu máli í rekstri borgarinnar á þann hátt að ef þeim verður breytt þá er borgin komin í veruleg fjárhagsleg vandræði,“ sagði Vigdís í bókun um málið.

Hér má lesa frekari fréttir um Félagsbústaði og uppgjör þess: