Margrét Sanders, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að aðferðafræði verðlagseftirlits ASÍ við framkvæmd verðlagskannanna sé ófullkomin, enda sé til að mynda ekki tekið tillit til gengisbreytinga  auk þess sem kannanir séu framkvæmdar með of löngu millibili. Fyrir vikið séu niðurstöður þeirra rangar.

„Ég held að við ættum að vinna þetta saman og koma með góðar almennar kannanir þannig að menn séu sammála um aðferðafræðina. Það er aðferðafræðin sem skiptir máli og það er algjörlega óþolandi að þurfa að standa og verja eitthvað sem við segjum bara hreinlega að sé rangt,“ segir Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunnar og þjónustu í samtali við RÚV.

Viðskiptaráð beindi sambærilegri gagnrýni til ASÍ í maí síðastliðnum, auk Ormsson og Samsung setursins. ASÍ brást ekki við þeirri gagnrýni og var hún því ítrekuð.

Greinir á um hækkanir

„Við áttum í ágætis samstarfi við samtök verslunar og þjónustu fyrir nokkrum árum. Af einhverjum ástæðum sáu samtökin sér hag í því að segja því samstarfi upp. Samtök verslunar og þjónustu eru auðvitað hagsmunasamtök verslunarinnar og við þurfum að tryggja það ef að við förum í samstarf að það sé alveg ljóst að kannanirnar séu gerðar með hag neytenda að leiðarljósi," segir Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hagdeildar ASÍ. Hann segir að skýringar hafi verið gefnar á flestum verðbreytingum, en þó ekki á því hvers vegna afnám sykurskatts hafi ekki skilað sér út í verðlag að mati ASÍ.

Þessu er Margrét ósammála. „Það er bara ekki rétt. Það er sama hvaða kannanir við skoðum. Af hverju ættum við að vera að blekkja neytendur. Neytendur eru þeir sem kaupa í okkar verslunum og þess vegna viljum við að menn treysti okkur. Það er alveg sama við hvaða verslun við tölum. Allar fullyrða að það sé verið að skila þessu," segir Margrét Sanders.