Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði í útvarpsfréttum Bylgjunnar fyrr í dag að það hefði verið gagnrýnivert af Byr sparisjóði hvernig staðið var að stofnfjáraukningu í sjóðnum árið 2007.

Vitnaði Birna til þess að stofnfjáreigendur í sjóðnum hefðu tapað næstum öllu stofnfé sínu ef þeir tóku ekki þátt í stofnfjáraukningunni. Glitnir fjármagnaði um 30 milljarða aukningu í sjóðnum að stórum hluta.

Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu á fimmtudag lánaði Glitnir 10 ófjárráða börnum milljónir króna fyrir stofnfé. Tugir stofnfjáreigenda undirbúa nú málsókn á hendur Íslandsbanka vegna lánanna sem bankinn yfirtók frá Glitni við fall þess banka sl. haust. Stofnfjáreigendurnir vilja meina að aðeins hafi verið lánað út á stofnféð en bankinn telur sig geta gengið að frekari eignum lántakenda.

Íslandsbanki hefur tekið ákvörðun um að innheimta ekki lánin til barnanna í ljósi þess að lán Glitnis til þeirra voru ólögleg, þar sem sýslumaður hafði ekki veitt samþykki sitt fyrir lánunum. Birna sagði í viðtali við Bylgjuna að ábyrgð foreldra barnanna sem fengu lán væri mikil líkt og Glitnis.