Guðlaugur Þór Þórðarson hefur í þriðja sinn lagt fram frumvarp sem felur í sér skyldu opinberra aðila til að birta sundurgreindar upplýsingar um kaup á vörum og þjónustu.

Eitt af þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram á nýju þingi er frumvarp um breytingu á upplýsingalögum. Ef frumvarpið verður samþykkt verður stjórnvöldum og lögaðilum sem eru í meirihlutaeigu hins opinbera skylt að birta sundurgreindar upplýsingar um kaup á vörum og þjónustu.

Frumvarp þetta hefur tvisvar verið lagt fram áður en í bæði skipti dagað uppi í þinginu. Guðlaugur Þór Þórðarson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en hann fullyrðir að „það sé hægt að spara milljarða, ef ekki tugi milljarða, á auknu gagnsæi og aðhaldi í ríkisfjármálum“.

Markmið frumvarpsins er að tryggja aðgang almennings að upplýsingum um hvernig opinberir aðilar verja sameiginlegum fjármunum auk þess að vinna gegn spillingu. Aukinn aðgangur almennings ætti skv. frumvarpinu að „leiða til aukins aðhalds með hinu opinbera og þar með tryggja betur að hið opinbera verji fjármunum af skynsemi og ráðdeild“. Aukið gagnsæi við kaup opinberra aðila á vörum og þjónustu ætti einnig að hamla því að óeðlilega sé staðið að verki og ætti þar af leiðandi að auka traust á opinberum aðilum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .